Mannamunur á íslenskum vinnumarkaði

Mannamunur á íslenskum vinnumarkaði

Mirra vekur athygli á afar áhugaverðu málþingi, sem stéttarfélagið Efling, Starfsgreinasambandið (SGS) og Alþýðusamband Íslands (ASÍ) efna til og fjallar um stöðu erlends verkafólks á Íslandi. Málþingið er haldi  dagana 23.-26. febrúar.
Boðið verður upp á áhugaverða dagskrá í formi fyrirlestra og umræðna.

Um fjóra viðburði er að ræða sem verður streymt á miðlum samtakanna. Viðburðirnir verða textatúlkaðir á íslensku og ensku og fara fram .kl. 15:00–16:00 alla dagana og má nálgast hvern og einn fyrir neðan sama dag eftir að þeir eru sendir út.

Dagskráin hefst þriðjudaginn 23. febrúar þar sem fjallað verður um
Veruleika erlends fólks á Íslandi. Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu – rannsóknarstofu ASÍ –  kynnir helstu niðurstöður nýrrar könnunar varðandi veruleika erlends starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði. Í pallborði eru Anna Wojtynska, nýdoktor í mannfræði við HÍ og Hallfríður Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Mirru. Drífa Snædal, forseti ASÍ, stýrir umræðum.

Fylgjast með viðburði 

Harkvinna og varnarleysi á íslenskum vinnumarkaði er  yfirskrift dagskrárinnar miðvikudaginn 24. Febrúar.  Þar mun Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, stýra umræðum um aðstæður pólsks verkafólks á Íslandi. Í pallborði eru Adda Guðrún Gylfadóttir, félagsfræðingur, HÍ, Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar og Piotr Roicki, fyrrverandi hótelstarfsmaður og félagi í Eflingu.

Hér má nálgast umræðurnar

Bjargvættir í íslenskri ferðaþjónustu er yfirskrift umræðunnar fimmtudaginn 25. Febrúar.  Þar leiðir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, dagskrána um framlag erlends verkafólks til íslenskrar ferðaþjónustu. Magnfríður Júlíusdóttir, lektor í mannvistarlandfræði við HÍ flytur erindið: „Það á ekki að líta á starfsfólk í ferðaþjónustu sem einnota dót.” Arndís Ósk Magnúsdóttir, hjá Rannsóknarsetri Háskólans á Höfn talar um  „Upplifun erlends verkafólks í ferðaþjónustu í Covid“  og Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis og formaður starfshóps ASÍ um uppbyggingu ferðaþjónustunnar, flytur erindið sem heitir: Notum tækifærið, byggjum upp fyrirmyndar ferðaþjónustu.

Hér má nálgast umfjöllunina um ferðaþjónustuna.

Vinnumansal – íslenskur veruleiki  er til umfjöllunar föstudaginn 26. febrúar kl., og er jafnframt síðast erindið á málþinginu.  Ragna Björg Guðbrandsdóttir, teymisstjóri framkvæmdateymis um mansal í Bjarkarhlíð, Logan Smith Sigurðsson, fórnarlamb mansals og formaður Stop the Traffik Iceland og  Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands og fulltrúi í framkvæmdateymi um mansal í Bjarkarhlíð sitja í pallborði.

Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, stýrir umræðum.

Hér má nálgast umræðurnar.

 

 

 

Ráðgjafarstofa innflytjenda opnar

Ráðgjafarstofa innflytjenda opnar

Þann 10. febrúar opnaði Ásmundur E. Daðason Félagsmálaráðherra, Ráðgjafarstofu innflytjendamála.

Í frétt Stjórnarráðsins kemur fram að ráðgjafarstofan hafi það að „markmiði að tryggja betri og markvissari ráðgjöf til innflytjenda og býður upp á aðgengilega ráðgjöf, leiðbeiningar og upplýsingar fyrir innflytjendur um nauðsynlega þjónustu, réttindi þeirra og skyldur.“ Ennfremur er stofunni ætlað að vera samstarfsvettvangur milli stofnana ríkis, sveitarfélaga og hagsmunaaðila svo sem stéttafélaga og félagasamtaka. Ráðgjafarstofan vinnur í nánu samstarfi við Fjölmenningarsetur, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Umboðsmann skuldara, Reykjavíkurborg og Vinnumálastofnun.

Hugmyndina að ráðgjafarstofunni átti Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri Grænna, sem var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um málið sem var samþykkt í júní 2019.

Á Ráðgjafarstofunni starfa fimm starfsmenn sem hafa fjölbreytan bakgrunn og munu geta veitt ráðgjöf á sjö tungumálum en auk þess mun einstaklingum bjóðast ráðgjöf í gegnum túlkaþjónustu á öðrum tungumálum. Opnuð hefur verið vefsíða, newiniceland.is, þar sem einstaklingar geta bæði sent inn erindi, panta viðtal eða spjalla við ráðgjafanna. Forstöðumaður er Joanna Marcinkowska.

Ráðgjafarstofan er hugsuð sem reynsluverkefni til níu mánaða og að sex mánuðum liðnum verður verkefnið metið með tilliti til framtíðarfyrirkomulags. Hér má nálgast vef Ráðgjafstofunnar.

Á meðfylgjandi mynd má sjá frá vinstri: Kolbein Óttarsson Proppé, Joanna Marcinkowska og Ásmund E. Daðason.

Staða launafólks á Íslandi –  Innflytjendur og konur í verstri stöðu

Staða launafólks á Íslandi – Innflytjendur og konur í verstri stöðu

Staða launafólks á Íslandi er yfirskrift könnunar ASÍ og BSRB, sem lögð var fyrir félaga í aðildarfélögum beggja samtakanna. Niðurstöður eru um margt sláaandi og færa heim sanninn um afar viðkvæma stöðu launafólks. Því miður kemur ekki á óvart að staða atvinnulausra er verri en þeirra sem eru starfandi og staða innflytjenda á atvinnuleysisskrá enn verri. Helstu niðurstöðu könnunarinn eru að:

Um fjórðungur launafólks á erfitt eða frekar erfitt með að ná endum saman.
Um fjórðungur kvenna á vinnumarkaði býr við slæma andlega heilsu.
Fimmtungur launafólks getur ekki mætt óvæntum útgjöldum.
Staða atvinnulausra er verri en launafólks þegar litið er til fjárhags og heilsu:
– Atvinnulausir eiga erfiðara með að láta enda ná saman, fleiri í þeirra hópi hafa þegið
matar- og/eða fjárhagsaðstoð og líða efnislegan skort.
– Innan við helmingur atvinnulausra býr í eigin húsnæði.
– Andleg og líkamleg heilsa atvinnulausra er verri og þeir eru líklegri til að hafa neitað
sér um heilbrigðisþjónustu. Andleg heilsa 40,5% atvinnulausra mælist slæm en 21,4%
launafólks.
– Líkamlegt heilsufar 15,6% atvinnulausra er slæmt eða frekar slæmt.
– 54,6% atvinnulausra höfðu neitað sér um heilbrigðisþjónustu.
– Atvinnulausir eru sveigjanlegir og virkir í atvinnuleit.

Staða innflytjenda er verri en innfæddra:
– Fjárhagsstaða innflytjenda er verri á öllum mælikvörðum. Þeir eiga erfiðara með að
láta enda ná saman, líða frekar efnislegan skort og hafa í meira mæli þegið matarog/eða fjárhagsaðstoð.
– Mun færri innflytjendur en innfæddir búa í eigin húsnæði eða 34,9% en meðal
innfæddra er hlutfallið 77,4%. Stærri hluti innflytjenda býr á almennum leigumarkaði
eða 49,3% en hlutfallið er mun lægra meðal innfæddra, 11,1%.
– Andlegt heilsufar innflytjenda er verra en líkamlegt heilsufar betra. 30,5%
innflytjenda mælast með slæma andlega heilsu.
– Innflytjendur sögðust síður hafa þörf fyrir heilbrigðisþjónustu en 24,7% höfðu neitað
sér um heilbrigðisþjónustu en 13,5% innfæddra.
– Atvinnulausir innflytjendur sýna almennt meiri virkni og sveigjanleika en innfæddir
og á það sérstaklega við um atvinnulausar konur.

Andleg heilsa ungs fólks verri og það er líklegra til að hafa neitað sér um
heilbrigðisþjónustu:
– Andleg heilsa 41,6% ungs fólks er slæm en 21,4% þeirra sem eru eldri og voru mun
fleiri í þeirra hópi eða 58,9% sem höfðu neitað sér um heilbrigðisþjónustu á
síðastliðnum sex mánuðum en 33,8% hjá eldri hópnum.

Rannsóknin var unnin af Vörðu, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins. Hér má nálgast skýrsluna

 

Staða innflytjenda á Íslandi fer batnandi

Staða innflytjenda á Íslandi fer batnandi

Fyrir skemmstu voru birtar niðurstöður MIPEX, sem stendur fyrir  Migrant Integration Policy Index, sem þýða mætti sem Vísitala opinberrar stefnu um samþættingu inn/flytjenda).

Í ljós kom að Svíþjóð er enn í efsta sæti, en af Norðurlöndunum hækkaði Ísland MIPEX vísitalan mest, eða um sjö stig úr 49 í 56 milli áranna 2014 og 2019, á kvarðanum 100. Svíþjóð fékk 86 stig, lækkaði um eitt á tímabilinu. Fjallað var um MIPEX niðurstöðurnar í frétt í Nordic Labour Journal (21.01. 2021) og sérstaklega um stöðu Norðurlandanna. Ísland var í næst neðsta sæti, Danmörk í því neðsta. Frekari upplýsingar um hvernig Norðurlöndin raðast í MIPEX má nálgast hér.

Að baki MIPEX standa 52 ríki víðsvegar í heiminum og vísitalan mælir átta mismunandi þætti í hverju landi með tilliti til aðgengis innflytjenda. Þættirnir eru:  Hreyfanleiki á vinnumarkaði – Fjölskyldusameining – Menntun – Heilsa – Pólitísk þátttaka- Langtíma búseta – Aðgengi að ríkisfangi móttökulands – Aðgerðir gegn mismunun.

Í fyrrgreindri frétt Nordic Labour Journal er greint frá því að MIPEX vísitalan sé oft notuð til að bera saman hversu víðtæk samþættingarstefna hvers lands er. Það segir hins vegar ekkert um hversu árangursrík stefnan er. Land sem eingöngu hleypir inn mjög hæfu starfsfólki getur til dæmis mælst með betri árangur en land sem tekur á móti fjölda lágmenntaðra flóttamanna.

Vegna þess hversu fáir innflytjendur bjuggu lengst af í landinu hafði Ísland ekki sett neina löggjöf til að vernda innflytjendur gegn mismunun. Innflytjendur höfðu heldur ekki umboð til að leita til ef þeim fannst mismunað. Fyrir vikið hafði Ísland verstu aðlögunarstefnuna á Norðurlöndum árið 2014 samkvæmt MIPEX.

„Áður var aðkoma Íslands að samþættingu flokkuð af MIPEX sem„ innflytjendamál án samþættingar“vegna þess að innflytjendum til Íslands var neitað um svo mörg grunnréttindi til þátttöku sem jafningja í íslensku samfélagi. Nú njóta innflytjendur góðs af „heildstæðri nálgun“ varðandi samþættingu, með öruggari grunnréttindum og stuðningi við jöfn tækifæri. Það má líta á þessa breytingu sem mikla viðurkenningu á Íslandi sem innflytjendaríki, svipað og öll önnur vestur-evrópsk lönd. “

Sumar mikilvægustu aðgerðirnar sem MIPEX nefnir eru meðal annars löggjöf til að vernda bæði Íslendinga og innflytjendur gegn mismunun á grundvelli kynþáttar, þjóðernis eða trúarbragða. Í þessu tilviki munar mestu um  Lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna  nr. 85, sem samþykkt voru 25. júní 2018 sem og Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2020 sem samþykkt voru sama dag.

Ennfremur skiptir hér máli að starfssemi Jafnréttisstofu var víkkuð út með lögum nr. 151/2020  um stjórnsýslu jafnréttismála, sem samþykkt voru 29. desember s.l., og sem ná til jafnréttis innflytjenda. Í sem stystu máli benda niðurstöður MIPEX til batnandi stöðu innflytjenda gagnvart íslenskum lögum og það er vissulega fagnaðarefni.

 

Eru innflytjendur á Íslandi ‘bara’ vinnuafl?

Eru innflytjendur á Íslandi ‘bara’ vinnuafl?

Birtist á visir.is
Atvinnuleysi meðal innflytjenda, stærsta minnihlutahópsins á Íslandi mældist um 20% í júlí s.l. en var á landsvísu rétt um 8%,samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun. Kórónafaraldurinn með tilheyrandi atvinnustöðvun og efnahagssamdrætti um víða veröld er líkt og flestir vita meginorsök þessa. Að innflytjendur fái meira en helmingi verri skell en almennt gerist þegar fjöldaatvinnuleysi verður, er ekkert nýtt. Í Hruninu 2008, var atvinnuleysi þeirra frá helmingi og allt að þrisvar sinnum hærra en landsmeðaltalið. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að atvinnuleysi ýtir m.a. undir þunglyndi og einangrun. Við þessar aðstæður skerpast línur og kalla á nauðsyn þess að frekari samþætting (e. integration) innflytjenda inn í íslenskt samfélag verði unnin með kerfisbundnum hætti.

Efnahagsþenslur dregið tugi þúsunda til landsins

Efnahagsþenslur og atvinnuframboð með tilheyrandi skorti á starfsfólki eru meginástæðurnar og sterkasta aðdráttaraflið, sem laðað hefur innflytendur til landsins. Ef ekki hefði verið fyrir vinnuframlag þeirra hefði þenslan, sem varð í ferðaþjónustunni og efnahagsvöxturinn, sem fylgdi, aldrei orðið að veruleika. Yfir þriðjungur allra, sem þar störfuðu voru innflytjendur auk þeirra sem unnu í afleiddum greinum. Hrun ferðaþjónustunnar kemur því mjög harkalega niður á þeim. Árið 2019 var, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, allt að fimmti hver starfandi á vinnumarkaði innflytjandi og þeir greiða sína skatta og skyldur til samfélagsins. Meirihluti þeirra er á vinnualdri, fáir á eftirlaunaaldri og börn hlutfallslega fá, og opinber gjöld í þeirra þágu því lág. Innflytjendur eru nú um 16% íbúa landsins eða í kringum sextíu þúsund, fyrsta og önnur kynslóð. Fjölgunin er 85% frá árinu 2000, hraði í alþjóðlegum fólksflutningum, sem ekki á sér hliðstæðu í neinu nágrannalandanna.

Meirihluti aðfluttra er hvítur, evrópskur og kristinn en aðrir koma lengra að úr fjarlægari heimsálfum og mennningu. Nýju fólki fylgja eðlilega samfélagslegar áskoranir, ólík menning, bakgrunnur og skilningur getur orsakað árekstra og misskilning. En það eru ekki bara innflytjendur, sem þurfa að laga sig að íslensku samfélagi og menningu, heimamenn þurfa líka að leggja sitt af mörkum til að mæta þeim, hvort heldur á vinnumarkaði eða annarstaðar. Það þarf alltaf tvo í tangó, sama máli gegnir um samþættinguna. Fræðsla og skilningur á menningarlegum bakgrunni aðfluttra er ein leið að aukinni samþættingu.

 –

Fyrirhyggjuleysi og skuggahliðar

Framsýni, skipulag og fyrirhyggja hefur á stundum vantað í hegðun stjórnvalda hér á landi. Áherslan hefur frekar verið á að bregðast við tilteknu ástandi líkt og endurspeglast í því viðhorfi að innflytjendur séu ”vinnuafl” komið hingað á vertíð til að redda heimamönnum þegar hagkerfið hefur bólgnað hraðar út en framboð á vinnukrafti heimamanna hefur annað og hverfi svo á braut í vertíðarlok. Líkt og tölur Hagstofunnar um alþjóðlega fólksflutninga vitna um hefur meginþorri innflytjenda, sem hingað hafa flutt, sest hér að.

Fyrirhyggjuleysi birtist m.a. í húsnæðismálum. Húsnæðisskortur og óboðlegt óíbúðarhæft húsnæði, sem innflytjendur hafa neyðst til að búa í, er ekki einstaklingsvandamál innflytjenda heldur samfélagslegt vandamál. Ekki heldur uppsprengt leiguverð, sem hefur verið ríkjandi í áratugi. Dauði innflytjendanna, sem brunnu inn í eldsvoðanum, sem varð á Bræðrarborgarstíg fyrr í sumar var viðbúinn. Spurning hvort gerðar verði grundvallarbreytingar á lögum og reglugerðum og framboði af mannsæmandi húsnæði sem komið gæti í veg fyrir að slíkar hörmungar endurtaki sig.

Sú áhersla, sem verið hefur hjá hinu opinbera að bjóða út verk og taka iðulega tilboði lægstbjóðanda er í hæsta máta umdeilanleg þegar vitað er að baki liggur láglaunastefna, sem í raun er ekkert annað en undirboð. Oftar en ekki eru það svo erlendir starfsmenn, sem vinna verkin. Í kreppum eykst hættan á undirboðum og að réttindi launafólks séu vanvirt, innflytjendur eru margir berskjaldaðir fyrir því. Slíkum málum hefur skolað upp á yfirborðið með reglubundnu millibili og ratað í fjölmiðla en gerendur oftar en ekki verið stikkfrí og sloppið með skrekkinn, fyrirtækið sett á hausinn og opnað aftur á nýrri kennitölu næsta dag. Þrátt fyrir margítrekaðar umkvartanir launþegahreyfingingarinnar er kennitöluflakk enn við lýði (sjá m.a. heimasíðu Alþýðusambands Íslands og Eflingar stéttarfélags auk rannsóknar höfundar Innflytjendur í ferðaþjónustu frá 2019). Sömu sögu er að segja um undirboð en þrátt fyrir ákvæði í Lífskjarasamningum aðila vinnumarkaðarins frá 2019, þar sem samið var um að beita sektum við slíkum brotum hefur því ekki verið fylgt eftir af yfirvöldum.

 –

Sterkur vinnumarkaður – lagskiptur eftir uppruna og kyni

Rétt að undirstrika – þrátt fyrir ofangreindar skuggahliðar – að sá vinnumarkaður, sem bíður innflytjenda hér á landi stendur á afar traustum grunni, er einstaklega vel skipulagður og réttindi og skyldur launafólks jafnt sem atvinnurekenda tryggð með lögum. Innflytjendur færa líka með sér þekkingu, reynslu og menntun, sem hefur auðgað íslenskt samfélag á margvíslegan hátt. Þeir hafa opnað veitingastaði og verslanir, þá er finna í röðum kennara, sérfræðinga í heilbrigðis- félags- og raunvísindum og jafnvel meðal pólitískra fulltrúa auk annara starfsgreina.

Íslenskur vinnumarkaður er þrátt fyrir styrk og kosti líka lagskiptur ekki bara eftir kyni heldur líka eftir uppruna þar sem hlutfallslega mjög margir innflytjendur eru neðstir í launa- og virðingarpýramídanum. Lagskiptingin ýtir undir stéttskiptingu. Auk ofantaldra, hafa innflytjendur verið hlutfallslega fjölmennir og samþjappaðir í ákveðin störf, s.s. umönnun, þrif, matvælaframleiðslu, smáiðnað og byggingarvinnu auk ferðaþjónustunnar. Þetta eru meira og minna láglaunastörf, sem ekki krefjast sérmenntunar og bjóða upp á litla framgangsmöguleika/starfsþróun. Slík lagskipting er engan veginn æskileg samfélagsleg þróun.

 –

(Hvenær) eiga innflytjendur að læra íslensku?

Heimamenn hafa margir horfið úr þessum starfsgreinum svo innflytjendur eru því oft að vinna með samlöndum sínum og öðrum innflytjendum eingöngu, sem nær útlokar að þeir geti lært íslensku af samstarfsfólki. Það er að sjálfsögðu einnig á ábyrgð innflytjenda sjálfra að leggja sig fram um að læra málið. Til þess að svo megi verða þarf bæði hvatningu og aukinn aðgang að íslenskunámskeiðum. Bent hefur verið á að framboð á þeim sé takmarkað og gæði þeirra námskeiða, sem í boði eru hafa verið mjög mismunandi eftir því sem margir vitna um. Fyrir þá sem kunna eitthvað fyrir sér og vilja æfa sig þá höldum við sum að það sé ”náttúrulegt” að tala ensku við alla aðflutta. Það gerist því miður líka oft á blönduðum vinnustöðum. Að eiga öll tjáskipti við innflytjendur á ensku, heldur þeim utangarðs, fyrir utan mörk íslensks málsamfélags. Það kemur líka í veg fyrir að þeir eigi möguleika á framgangi á vinnumarkaði. Þeir fá til að mynda varla vinnu hjá hinu opinbera þar sem íslenskukunnáttu er iðulega krafist. Ein mikilvægasta leiðin til samþættingar er að stuðla að íslenskukunnáttu innflytjenda með öllum tiltækum ráðum.

 

Auður og aðgerðir

Meðal innflytjenda eru þúsundir menntaðs fólks, fjölmargir iðn- og tæknimenntaðir auk þeirra sem hafa margskonar háskólamenntun. Hvaða menntun, hvaða auður og þekking býr meðal þeirra liggur ekki fyrir en rannsóknir hafa sýnt að þeim reynist mörgum hverjum erfitt að fá menntun sína metna hér á landi (sbr. rannsóknina Jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði eftir lögfræðingana Claudia Wilson og Auði T. Aðalbjarnardóttur 2019). Að auðvelda mat á menntun þeirra er allra hagur. Annað er sóun á verðmætum.

Nú er kreppa og lag fyrir stjórnvöld að snúa vörn í sókn gagnvart málefnum, sem snúa sérstaklega að innflytjendum, stuðla að því að fleiri færist af jaðrinum og í átt að miðjunni og verði samofinn hluti af samfélaginu en ekki einangraðir frá heimamönnum. Það eru ekki bara fyrirtæki ,sem þurfa aðstoð, launafólk og almenningur þarf hana líka. Aðgerðir sem stuðla að samþættingu milli innflytjenda og heimamanna eru fjárfesting til frambúðar.

Höfundur, er doktor í menningarmannfræði og framkvæmdastjóri mirra.is og hefur unnið við fræðslu og rannsóknir á innflytjendum á Íslandi í fjölda ára.

Nærri 40% atvinnulausra eru erlendir ríkisborgarar

Nærri 40% atvinnulausra eru erlendir ríkisborgarar

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara er margfalt hærra en meðal innfæddra. Innflytjendur hafa verið mjög fjölmennir í þeim atvinnugreinum sem stækkað hafa hvað örast á undangengum árum, ferðaþjónustunni og greinum henni tengdri. Hrun ferðaþjónustunnar í kjölfar heimsfaraldursins Covid-19 kemur því mjög hart niður á innflytjendum, sem unnið hafa í greininni, hvort heldur á hótelum, bílaleigum, ferðaskrifstofum og rútufyrirtækjum eða í veitingaþjónustu eða öðrum afleiddum störfum, sem með óbeinum hætti tengjast  ferðaþjónustunni. (Benda má á rannsókn Mirru Innflytjendur í ferðaþjónustu sem er að finna hér á síðunni undir rannsóknir). Hér að neðan má sjá umfjöllun Kjarnans um atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara á Íslandi.  Tölur Vinnumálastofnunar, sem samantekt Kjarnans byggir á, ná ekki til þeirra innflytjenda,sem hlotið hafa íslenskt ríkisfang og gæti atvinnuleysi því hugsanlega verið hærra meðal innflytjenda. https://kjarninn.is/frettir/2020-06-13-alls-39-prosent-atvinnulausra-eru-erlendir-rikisborgarar/ 

-Yuridise Kendi Nyaga er herbergisþerna og félagi í Eflingu – Mynd: Alda Lóa Leifsdóttir