Þann 10. febrúar opnaði Ásmundur E. Daðason Félagsmálaráðherra, Ráðgjafarstofu innflytjendamála.

Í frétt Stjórnarráðsins kemur fram að ráðgjafarstofan hafi það að „markmiði að tryggja betri og markvissari ráðgjöf til innflytjenda og býður upp á aðgengilega ráðgjöf, leiðbeiningar og upplýsingar fyrir innflytjendur um nauðsynlega þjónustu, réttindi þeirra og skyldur.“ Ennfremur er stofunni ætlað að vera samstarfsvettvangur milli stofnana ríkis, sveitarfélaga og hagsmunaaðila svo sem stéttafélaga og félagasamtaka. Ráðgjafarstofan vinnur í nánu samstarfi við Fjölmenningarsetur, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Umboðsmann skuldara, Reykjavíkurborg og Vinnumálastofnun.

Hugmyndina að ráðgjafarstofunni átti Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri Grænna, sem var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um málið sem var samþykkt í júní 2019.

Á Ráðgjafarstofunni starfa fimm starfsmenn sem hafa fjölbreytan bakgrunn og munu geta veitt ráðgjöf á sjö tungumálum en auk þess mun einstaklingum bjóðast ráðgjöf í gegnum túlkaþjónustu á öðrum tungumálum. Opnuð hefur verið vefsíða, newiniceland.is, þar sem einstaklingar geta bæði sent inn erindi, panta viðtal eða spjalla við ráðgjafanna. Forstöðumaður er Joanna Marcinkowska.

Ráðgjafarstofan er hugsuð sem reynsluverkefni til níu mánaða og að sex mánuðum liðnum verður verkefnið metið með tilliti til framtíðarfyrirkomulags. Hér má nálgast vef Ráðgjafstofunnar.

Á meðfylgjandi mynd má sjá frá vinstri: Kolbein Óttarsson Proppé, Joanna Marcinkowska og Ásmund E. Daðason.