Rannsóknir og ráðgjöf

Rannsóknir Mirru á innflytjendum á Íslandi – Ráðgjöf um innflytjendamál

Rannsóknir

Mirra  hlaut rannsóknarstyrk frá Jafnréttissjóði fyrir styrkárið 2019. Styrkurinn er veittur fyrir rannsókn sem ber yfirskriftina: Kjör, lífskilyrði og staða innflytjendakvenna í láglaunastörfum á almennum og opinberum markaði.  Ráðgert er að hefja rannsóknina haustið 2019. Um er að ræða rannsókn sem byggir bæði á viðtölum (eigindleg aðferðafræði) og úrvinnslu margskonar gagna m.a. tölulegra (megindleg aðferðafræði).                                              

Ráðgjöf

Mirra veitir, fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum ráðgjöf er varðar margkonar mál, sem tengjast margmenningu (fjölmenningu). Mál geta  snúið að áskorunum, sem kunna að koma upp á vinnustöðum þar sem starfsmenn koma úr ólíkum áttum eða ólíkri menningu. Undir þetta falla, samskipti, vinnumenning og skipulag á vinnustað eða í félagasamtökum. Ráðgjöf getur líka lotið að langtímaáætlunum og markmiðum varðandi margmenningu innan fyrirtækis, stofunar, félagasamtaka eða sveitarfélags. 

Mikilvægi rannsókna

Íslenskt samfélag hefur tekið grundvallarbreytingum það sem af er 21. öldinni, frá því að vera eitt einsleitasta þjóðríki Vestur-Evrópu yfir í að státa af menningarlegum margbreytileika á pari við nágrannalöndin. Þróunin hefur verið afar hröð og sér ekki fyrir endann á henni. Rannsóknir á innflytjendum og samfélagslegum áhrifum menningarlegs margbreytileika á Íslandi eru því aðkallandi.

Markmið rannsókna Mirru er að draga fram helstu þætti, sem einkenna menningarlegan margbreytileika og innflytjendur á Íslandi. Áhersla hefur verið lögð á innflytjendalandið Ísland og félags- og efnahagslega stöðu innflytjenda, ekki síst eins og hún birtist á vinnumarkaði og húsnæðismarkaði, sem og almennt í samfélaginu. Mirra hefur tekið þátt í innlendu og alþjóðlegu allt frá upphafi.

Hér fyrir neðan getur að líta nokkar af helstu rannsóknum, sem Mirra hefur unnið að. 

Jaðarsetning í jafnréttisparadís – Innflytjendakonur í umönnun á leikskólum

Á haustdögum 2023 kom út rannsóknarskýrslan Jaðarsetning í jafnréttisparadís – Innflytjendakonur í umönnun á leikskólum, sem unnin var af Mirru. Í brennidepli rannsóknarinnar er jafnréttishugtakið og tengsl þess við mismunun. Í stað þess að horfa aðeins á kynjajafnrétti – karlar, konur, og/eða allra kynja – líkt og tíðkast hefur í bæði í almennri og fræðilegri orðræðu á Íslandi undanfarna áratugi, beinir rannsóknin sjónum sínum líka að jafnrétti, sem lýtur að uppruna og virðingarstöðu, ásamt viðhorfum til einstakra starfsgreina. Innflytjendakonur, sem starfa í launaðri umönnun á leikskólum eru hópur, sem vegna kyns síns, uppruna og vanvirðingar á umönnunarstörfum eru berskjaldaðrar gagnvart mismunun á grunni allra þessara þátta.

Rannsóknin byggir á viðtölum við konur, sem starfa í launaðri umönnun á leikskólum. Aðaláherslan er á innflytjendakonur en jafnframt rætt við íslenskar starfssystur til samanburðar. Megin áhersla var lögð á að kanna hvernig upplifun þessara kvenna rímar við goðsögnina um hið rómaða jafnrétti á Íslandi þ.e. hina s.k. „jafnréttisparadís“ m.t.t. samtvinnunar annarra mismununarþátta.  Auk kyngervis (e. gender) var rýnt í mismunun á grundvelli uppruna þ.e. innflytjandi/ekki innflytjandi og í mismunun sem felst í rótgróinni vanvirðingu fyrir umönnunarstörfum. M.ö.o. þá fjallar rannsóknin um jafnréttishugtakið og s.k. samtvinnun mismununar og hvernig umönnun tengist þessum hugtökum.

Þrátt fyrir gegnumgangandi ánægju með búsetu á Íslandi og ánægju í starfi sýnir rannsóknin að mismunun í garð þessara kvenna var einkum og sérílagi viðhöfð vegna uppruna þeirra. Nokkrar kvennanna höfðu orðið fyrir alvarlegum launaþjófnaði og voru hlunnfarnar til margra ára á leikskólum, þar sem menntun þeirra var ekki virt sem skyldi af vinnuveitanda. Skortur á áheyrn, hunsun, jaðarsetning og útilokun af hálfu Íslendinga á vinnustað var ennfremur reynsla mjög margra. Jafnframt höfðu margar þeirra upplifað skort á menningarnæmi hjá Íslendingum á eigin skinni.

Auk umfjöllunar um jafnréttishugtakið og samtvinnun þess við aðra  mismununarþætti er rýnt í tengsl jafnréttis, vinnumarkaðar og innflytjenda í rannsóknarskýrslunni. Ennfremur er þróun leikskóla og starfsmannahalds á nýrri öld rakin m.t.t., fjölgunar innflytjenda. Rannsóknin byggir á bæði á eiginlegri og megindlegri aðferðarfræði auk úrvinnslu ýmiskonar ritaðra gagna. 

Rannsóknin hlaut styrk frá Jafnréttissjóði. Rafræn útgáfa af skýrslunni er hér vinstra megin til hliðar.

Innflytjendur í ferðaþjónustu

Í byrjun apríl 2019, kom út rannsóknarskýrslan Innflytjendur í ferðaþjónustu – drifkraftur vaxtar og hagsældar, sem greinir frá samnefndri rannsókn, sem unnin var af Mirru.  Ferðaþjónustan hefur vaxið með ógnarhraða og er nú stærsta atvinnugrein samfélagsins. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að þessi mikli vöxtur  í  ferðaþjónustunni á undangengum árum hefði aldrei orðið að veruleika nema með vinnuframlagi innflytjenda, sem eru rúmlega þriðjungur allra starfandi í greinninni.

Útgangspunktur rannsóknar var að kanna hvort og þá hvernig etnísk lagskipting (heimamenn/aðfluttir) á vinnumarkaði birtist innan ferðaþjónustunnar. Til að svara þeirri spurningu var hlutdeild innflytjenda kortlögð í þremur undirgreinum ferðaþjónustunnar: hótelum, bílaleigum og rútufyrirtækjum. Rannsóknin leiddi í ljós ótvíræða etníska lagskiptingu, þar sem fólk af erlendum uppruna er sumstaðar í yfirgnæfandi meirihluta starfsfólks. Kyn- og aldursskipting er ennfremur mikil en þó bæði mismikil og ólík innan þessara undirgreina. Sem dæmi má nefna að ungar konur eru í meirihluta starfsfólks hótela og ungir karlmenn á bílaleigum.  Rannsóknin leiddi ennfremur í ljós skort á heildarstefnu bæði í stærstu atvinnugrein landsmanna: ferðaþjónustunni og líka hvað viðkemur innflytjendum. Stefnuleysi í báðum þessum tilvikum kemur ekki síst niður á innflytjendum.

Skýrslan, er um eitt hundrað síður að stærð, prýdd margskonar töflum og gröfum, sem gefa glögga sýn á þann samhliða vöxt sem verið hefur í fjölgun innflytjenda og erlendra ferðamanna til landsins. Rannsóknin vekur upp áleitnar spurningar um margskonar nýjar samfélagslegar áskoranir, sem óhjákvæmilega fylgja þessum miklu breytingum á íslenskum vinnumarkaði og samfélagi.

Rannsóknin hlaut styrk frá Rannís og Þróunarsjóði innflytjendamála. Rafræn útgáfa af skýrslunni er hér til hliðar.

Húsnæðisaðstæður pólskra innflytjenda á höfuðborgasvæðinu – ástand og áskoranir

Mirra vann rannsókn á  húsnæðisaðstæðum meðal pólskra innflytjenda á höfuðborgarsvæðinuvar milli  2014-2015.  Úrtak í könnuninni var tæplega þrjú hundruð manns (287) og byggði á rafrænni spurningakönnun, rýnihópum, formlegum djúpviðtölum og óformlegum viðtölum.  

Rannsóknin leiddi m.a. í ljós að 63% bjuggu í leiguhúsnæði og  31% bjuggu í eigin húsnæði. Eignahlutfall húseigenda meðal pólskra innflytjenda hafði fjórfaldast frá árinu 2010. Verð réði mestu um val á húsnæði bæði meðal leigjenda og kaupenda. Yfirgnæfandi meirihluti leigjenda var með húsaleigusamning en nærri helmingur leigjenda var með húsaleigusamning, sem gilti skemur en eitt ár. Athygli vakti að aðeins fjórðungur aðspurðra fékk  húsaleigubætur en yfir tveir þriðju leigjenda þekktu ekki rétt sinn til húsaleigubóta.  Aðeins 1% þátttakenda í félagslegu húsnæði. Allt að 13% leigjenda svöruðu því til að þeir byggju í íbúðum sem staðsettar eru á iðnaðarsvæðum.

MIRRA hlaut styrk frá Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar og Þróunarsjóði innflytjendamála til að vinna að rannsókninni. Dr. Hallfríður Þórarindóttir og  Anna Wojtynska doktorsnemi í mannfræði unnu rannsóknina.

Hér er að finna samnefnda skýrslu, sem kom út 2015. 

Labour Migrants from Central and Eastern Europe in the Nordic Countries: Patterns of migration, working conditions and recruitment practices

(Farandstarfsfólk frá Mið og Austur Evrópu á Norðurlöndunum: Flutningsmynstur, vinnuaðstæður og ráðingarvenjur) er nafn á samnorrænni rannsókn, sem MIRRA vann að og hlaut styrk frá Norrænu ráðherranefndinni. Í rannsókninni voru borin saman launakjör, ráðningar og búferlamynstur meðal pólskra innflytjenda í Reykjavík, Ósló og Kaupmannahöfn. Upplýsingar um laun og aðra þætti, sem til rannsóknar voru byggðu á gögnum sem safnað var 2010 í rannsókninni Polonia 2010 og getið er að neðan. Rannsóknin hófst 2011 og lauk með útgáfu samnefndrar skýrslu í desember 2013. Um var að ræða samstarfsverkefni milli Kaupmannahafnarháskóla, MIRRA og rannsóknarmiðstöðvarinnar Fafo í Ósló, sem stýrði og hafði yfirumsjón með verkinu.
Íslenski hluti rannsóknarinnar, sem byggði á 481 manna úrtaki, leiddi m.a. í ljós að meðallaun pólskra starfsmanna á höfuðborgarsvæðinu voru aðeins 57% af meðaltekjum landsmanna og töluvert lægri en samlanda þeirra í hinum höfuðborgunum tveimur. Aftur á móti var yfirgnæfandi meirihluti, eða 80% pólskra starfsmanna í Reykjavík beinráðinn hjá íslenskum atvinnurekanda án milliliða og hafði fastráðningu. Í Ósló var hlutfallið aðeins fjórðungur og í Kaupmannahöfn 36%. Í skýrslunni er m.a. að finna kafla, sem fjallar um starfsmannaleigur á Íslandi.

Hér má nálgast skýrsluna.

Polonia Reykjavík 2010

Í samvinnu við Varsjárháskóla í Póllandi og Fafo í Ósló gerði MIRRA könnun meðal pólskra innflytjenda á höfuðborgarsvæðinu. Könnunin fól í sér athugun á gildi aðferðafræði, sem heitir á ensku Random Driven Sample og var upphaflega hönnuð til að ná í fólk eða hópa sem oft er erfitt að ná til. Íslenska rannsóknin fól í sér úrtak 481 pólskra karla og kvenna, sem tekin voru eins klukkutíma löng viðtöl við.

Spurningar lutu m.a að högum, lengd búsetu, menntun, starfi og starfskjörum pólskra innflytjenda átján ára og eldri. Niðurstöður hafa verið birtar í nokkrum tímaritsgreinum. Gögn úr Polonina rannsókninni voru jafnframt notuð í norrænu samanburðarrannsóknina sem getið er að ofan. Rannsóknin var styrkt af Þróunarsjóði EFTA. Dr. Hallfríður Þórarindóttir og Anna Wojtynska doktorsnemi í mannfræði unnu íslenska hluta rannsóknarinnar.

Staða innflytjenda á erfiðleikatímum – raddir og viðhorf

Staða innflytjenda á erfiðleikatímum – raddir og viðhorf
er heiti á rannsókn sem MIRRA vann í samvinnu við Rauða kross Íslands um stöðu innflytjenda í kjölfar efnahagskreppunnar 2009. Rannsóknin náði til nær alls landsins og byggði á umræðum rýnihópa, sem samanstóðu af innflytjendum í heimahéraði sem hittust og ræddu upplifun sína af kreppunni. Flestir bentu á að upplýsingum frá yfirvöldum hefði verið ábótavant og fannst það bera vott um afskiptaleysi í sinn garð. Margir höfðu upplifað mun meiri efnahagsþreningar heima fyrir en í kreppunni, sem fylgdi í kjölfar hrunsins en töluðu engu að síður um að finna sig í afar veikri stöðu á vinnumarkaði. Þó flestir bæru atvinnurekendum góða sögu voru dæmi um óásættanlega framkomu af þeirra hálfu. Mismunun á vinnustað og misneyting varðandi laun og kjör ásamt skorti á upplýsingum um réttindi og skyldur voru ennfremur atriði sem þátttakendur höfu reynt.

Rannsóknina unnu og Dr. Hallfríður Þórarinsdóttir og Sólveig H. Georgsdóttir MA í mannfræði og Berglind L. Hafsteinsdóttir MA í millimenningarfræðum.

Hér má nálgast skýrsluna.

Innan vallar eða utan – þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi meðal innflytjendabarna í Breiðholti

Rannsóknin var unnin í samvinnu við Reykjavíkurborg–Þjónustumiðstöð Breiðholts –og Íþróttafélag Reykjavíkur (ÍR). Rannsóknin laut að íþrótta-og tómstundastarfi innflytjendabarna í Breiðholti árið 2008. Um fjórðungur allra erlendra ríkisborgara Reykjavíkurborgar bjó þá í Breiðholti og var hlutfallið munhærra í Efra Breiðholti þar sem samþjöppun innflytjendafjölskyldna var/er hvað hæst í borginni. Lítið var vitað um íþróttaþátttöku innflytjendabarna í hverfinu og var rannsóknin m.a. gerð í því skyni að varpa skýrara ljósi á tómstundir og íþróttaþátttöku barnanna. Niðurstöður voru birtar í samnefndri skýrslu.  Rannsóknina unnu Sólveig H. Georgsdóttir MA í mannfræði og Dr. Hallfríður Þórarinsdóttir.

Hér má nálgast skýrsluna.