Hvað er Mirra?

Mirra er fræðslu- og rannsóknarsetur þar sem málefni innflytjenda og alþjóðlegir fólksflutningar eru í brennidepli
Framkvæmdastjóri er Dr. Hallfríður Þórarinsdóttir mannfræðingur

Dr. Hallfríður Þórarinsdóttir

Framkvæmdastjóri Mirru, fræðslu- og rannsóknarseturs hefur um langt árabil stundað kennslu og rannsóknir á innflytjendum og margmenningu á Íslandi.  Hallfríður hefur tekið þátt í rannsóknarsamstarfi innanlands og alþjóðlega og  haldið fjölmarga fyrirlestra í því sambandi bæði heima og erlendis. Hallfríður hefur áratuga reynslu af kennslu bæði heima og erlendis  og hefur kennt á flestum skólastigum, mest í símenntun og háskólakennslu og verið afar farsæl í því fræðslustarfi.

Hallfríður er með doktorspróf í menningarmannfræði frá The New School for Social Research í New York borg þar sem hún bjó um langt skeið. Auk faglegrar þekkingar á fjöl/margmenningu og þeim áskorunum og auði, sem henni fylgja hefur Hallfríður líka reynslu af búsetu  í Frakklandi og Svíþjóð ásamt búsetu vestan hafs að ógleymdri búsetu víðsvegar á landsbyggðinni. Þessa reynslu telur hún ómetanlega í starfi sínu. Hún er lundlétt, skapgóð, hrein bein í samskiptum og óhrædd við gagnrýna hugsun.

Dr. Hallfríður hefur iðulega verið afar virk í hverskonar félagsstarfi einkum því, sem miðar að réttlátara og betra samfélagi. Hún á sér fjölmörg áhugamál m.a. ferðalög, útivist, bóklestur og margt fleira.

Þjónusta

Fræðsla, fyrirlestrar, námskeið og vinnusmiðjur

Mirra veitir almenna og sértæka fræðslu, um menningarlegan margbreytileika, fjölmenningu og innflytjendur í íslensku samfélagi, ásamt þeim áskorunum, sem fylgja þessum nýja veruleika fyrir íslenskan vinnumarkað og samfélag í heild. Fræðsla er veitt í formi námskeiða, vinnusmiðja og fyrirlestra og sniðin að þörfum viðskiptavina hvort heldur stjórnenda á vinnumarkaði eða almennra starfsmanna.

Rannsóknir, greiningar og úttektir

Unnið er að ýmiskonar rannsóknum, greiningum og úttektum hjá Mirru sem snúa að innflytjendum, farandstarfsfólki og margmenningu í íslensku samfélagi. Rannsóknir eru fjölþættar og byggja á blönduðum rannsóknaraðferðum félagsvísinda – eigindlegum og megindlegum ásamt fleirum.

Ráðgjöf til einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga

Mirra veitir fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum ráðgjöf varðandi úrlausnir og áætlanir, sem lúta að verkefnum og áskorunum, sem fylgja íslenskri margmenningu.

Mirra byggir starfsemi sína á áratugalangri reynslu á sviði fræðslu og rannsókna.

Saga Mirru

Starfsemi Mirru á sér rætur í “Miðstöð Innflytjenda Rannsókna Reykjavíkur Akademíunni” skammstafað MIRRA, sem sameinaðist Fræðslusetrinu UniCom árið 2018. Starfsemi beggja á sér langa sögu, Fræðslusetrið var stofnað 2002 en MIRRA árið 2006 Stofnandi beggja er dr. Hallfríður Þórarinsdóttir og er hún framkvæmdastjóri nýju Mirru. Sameiningin skapaði tækifæri til setja fræðslu, rannsóknir og ráðgjöf undir einn hatt.

Af hverju rannsóknir og fræðsla?

Í ársbyrjun 2023 voru innflytjendur á Íslandi um 20% af heildarmannfjölda og hefur hlutfall þeirra tífaldast frá árinu 2000. Dreifing innflytjenda er mismikil milli landshluta og milli sveitarfélaga innan þeirra. Af stærri sveitarfélögum þá eru þeir fjölmennastir í Reykjanesbæ eða um 31.3% en fæstir á Norðurlandi vestra eða rúmlega þrjú prósent.

Störf og menntun innflytjenda
Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru innflytjendur 23% allra starfandi á vinnumarkaði, haustið 2023 eða ríflega fimmtíu og tvö þúsund manns. Innflytjendur eru dreifðir um allan vinnumarkaðinn, en hlutfall þeirra er áberandi hátt í sumum starfsgreinum, s.s. ferðaþjónustu, byggingariðnaði, umönnun, þrifum og fiskvinnslu. Flest þessara starfa eru láglaunastörf en margt af því fólki, sem vinnur þau býr yfir margskonar menntun, hvort heldur fagmenntun á sviði tækni- og iðngreina, háskólamenntun eða annari menntun.

Margbreytilegur hópur
Innflytjendur á Íslandi eru margbreytilegur hópur hvað varðar menningarlegan uppruna, menntun og trúarlegan bakgrunn en tveir þriðju er af evrópskum uppruna. Pólverjar hafa allt frá aldamótum verið fjölmennasti innflytjendahópurinnn og verið á bilinu 34-40% af heildinni.

Samfélagsbreytingar
Fjölgun innflytjenda á Íslandi hefur í för með sér miklar og áður óþekktar samfélagsbreytingar. Á örfáum árum hefur Ísland breyst úr einu einsleitasta samfélagi á Vesturlöndum í að vera mjög fjölmenningarlegt. Rannsóknir og fræðsla á þeim samfélagsbreytingum, sem fylgja fjölgun innflytjenda eru afar mikilvægar.

Markviss stefnumótun
Reynsla annarra þjóða sýnir að málefni innflytjenda eru eldfim og því er markviss fræðsla og rannsóknir brýnar m.a. til að styrkja stefnumótun yfirvalda og fagaðila um samþættingu (integration) aðfluttra og heimamanna.

Mikilvægi rannsókna
Rannsóknir kalla fram staðreyndir og gefa upplýsta mynd af ástandi mála og eyða um leið staðlausum fullyrðingum og goðsögnum, sem staðið geta í vegi fyrir málefnalegum úrlausnum. Slíkar rannsóknir hafa fræðilegt og hagnýtt gildi og eru nauðsynlegur vegvísir í þeirri stefnumótun, sem blasir við. Markviss fræðsla um þær áskoranir og auð sem býr í margmenningu er ennfremur liður í að stuðla að upplýstu samfélagi.