Námskeið, vinnustofur og fyrirlestrar

Mirru byggja á áralangri og farsælli reynslu kennara bæði innanlands og utan

 

Áhersla er lögð á gagnvirka kennsluhætti, byggða á framsögn kennara og lifandi samræðum milli hans og þátttakenda. Fræðsla, líkt og rannsóknir og ráðgjöf Mirru er ætíð unnin í samvinnu við viðskiptavini og miðar að því að geta ávarpað sértækar þarfir þeirra, sé þess óskað.

Fyrir stjórnendur

Námskeið og vinnustofur

Fjölþjóðlegur vinnustaður– auðlind eða ok?

Ólík tungumál, mismunandi gildi, ólíkur skilningur, annarskonar vinnumenning, tungumálaörðugleikar og fordómar eru aðeins brot af þeim óteljandi áskorunum, sem fylgja fjölþjóðlegum vinnustöðum. Þátttakendur fá þjálfun í menningarfærni (cultural competence) og aukna innsýn og skilning á vægi hennar fyrir farsæla stjórnun og alla hlutaðeigandi á vinnustaðnum. Aukin menningarfærni er lykilatriði á fjölþjóðlegum vinnustað og stuðlar að góðum vinnuanda og samskiptum.  Aukin menningarfærni felur í sér aukna innnsýn, virðingu og skilning á styrknum sem býr í  fjölþjóðlegum mannauði. Þar gegna stjórnendur forystuhlutverki. 

Menningarfærni og alþjóðleg samskipti

Sívaxandi alþjóðleg samvinna milli Íslendinga og annara hvort heldur í alþjóðaviðskiptum eða heima fyrir kallar á nauðsyn menningarfærni (cultural competence). Þátttakendur læra að átta sig á því hvernig menningin hefur m.a. mótandi áhrif á stjórnunarhætti, fundahöld, viðskiptaumleitanir, vinnulag og samningsgerð í samskiptum fólks. Það getur reynst dýrkeypt að horfa framhjá áhrifum menningarinnar á þessa þætti en með auknum skilningi og aukinni menningarfærni má sneiða hjá slíkum óþarfa kostnaði. 

Fyrir blandaða hópa

Námskeið og vinnustofur

Fordómar, rasismi, áskoranir og úrlausnir

Fordómar  og rasismi í garð fólks úr annarri menningu en íslenskri og af öðrum litarhætti en hvítum hafa skotið upp kollinum hér og hvar í samfélaginu og beinast einkum að innflytjendum  – og börnum þeirra –  sem koma víðsvegar að og hafa sest að í landinu í þúsundatali á undanförnum tuttugu árum. Auk þess hafa hundruðir ættleiddra einstaklinga, sem eiga líffræðilegan uppruna sinn í fjarlægum heimshlutum einnig upplifað rasisma og niðurlægingu. Í vinnustofunni er  annars vegar rýnt í fordóma, rasisma, niðurlægingu, ör-áreiti,  jaðarsetningu og útilokun og aðrar áskoranir fjölmenningar. Hins vegar er fjallað um ávinninga fjölbreytileikans og rýnt í hugtökin menningarnæmi, menningarfærni og s.k. menningarlega auðmýkt, sem hvert um sig felur í sér úrlausnir og færir þátttakendum verkfæri til að tækla fyrrgreind vandamál.

Ein menning, fjölmenning, menningarfærni

Menningarlegur margbreytileiki – fjölmenning – er ný vídd í íslensku samfélagi. Hvaða áhrif hefur menningin á hugmyndir, samskipti, hegðun og tilveru fólks? Hvaða áhrif hafa innflytjendur á íslenskt samfélag, minn vinnustað, heimahérað og hvað einkennir íslenska menningu?  Þátttakendur eru vaktir til vitundar um áskoranir sem fylgja menningarlegum margbreytileika um leið og þeir fá þjálfun í menningarfærni (e. cultural competence).

Margbreytileiki á íslenskum vinnustöðum

Íslenskur vinnumarkaður er vel skipulagður og sveigjanlegur, atvinnuþátttaka kvenna er yfir 80%, með því hæsta sem gerist í heiminum og innflytjendur eru um 20% allra starfandi. Vinnumarkaðurinn er kynskiptur og etnískt lagskiptur, því heilu starfsgreinarnar finnast þar sem starfsfólk af erlendum uppruna er í meirihluta. Rýnt verður í áskoranir, sem fylgja margbreytileika á vinnustöðum og hvernig best megi virkja þann auð sem í honum býr.

Samskipti á vinnustað – betri starfsandi

Vellíðan á vinnustað byggir á góðum starfsanda. Það er hagur allra að kunna að leysa úr ágreiningi og árekstrum, sem upp geta komið. Rýnt verður í og rætt um samskipti og starfsanda á vinnustaði. Áhersla er lögð á ábyrgð hvers einstaklings í mótun og viðhaldi á góðum starfsanda. Þátttakendum kenndar ýmsar aðferðir, sem styrkja þá í tjáningu og auðvelda farsæl samskipti. Valdefling er einn skýrasti ávinningur þessarar vinnustofu.

Hvort ég get, ekki málið! – Valdefling, ákveðniþjálfun og öruggari samskipti

Námskeiðið miðar að því að auka sjálftraust einstaklinga gera þá öruggari og ánægðari með sig og kenna aðferðir til að ná þeim markmiðum. Fjallað um tengsl jákvæðrar sjálfsímyndar, góðra samskipta og valdeflingar. Góð samskipti grundvallast á jákvæðri sjálfsímynd og sátt við sjálfan sig.

Fyrir alla

Fyrirlestrar og erindi

„Þú mátt vera memm” en ekki þú.   – Hverjir mega vera með og hverjir ekki?

Aðgreining og flokkun á sér djúpar rætur hjá mannkyninu og slíkt þarf ekki alltaf að vera slæmt. En þegar flokkanir í „við“ og „hina“ fela í sér útilokun,  andúð og mismunun í garð annara er málið orðið alvarlegt. Slíkar hugmyndir og hegðun tekur á sig ýmsar myndir m.a., hómófóbíu, rasisma, islamafóbíu og kvenfyrirlitningu ásamt fleiru.  Hvaðan koma þessar hugmyndir, hvað viðheldur þeim og hvernig ríma þær við íslenskan veruleika og kröfuna um jafnrétti allra borgaranna? Í erindinu verður leitað svara og rýnt í áleitnar áskoranir, sem fylgja þessum hugmyndum.

Alþjóðlegir fólksflutningar: áfangastaður Ísland

Ísland er nýr áfangastaður á korti alþjóðlegra fólksflutninga. Hvað einkennir innflytjendalandið Ísland, hvernig er það í samanburði við nágrannalöndin? Innflytjendstefna samkvæmt lögum – de jure – og innflytjendastefna í raun – de facto – er munur þar á? Hver er afstaða opinberra yfirvalda er hún próaktíf eða reaktíf? Hvernig gengur sambúð við heimamenn? Hver eru samfélagsleg áhrif innflytjenda?

Íslenskan, innflytjendur, enskan og túristarnir

Íslenskt samfélag breytist nú örar en nokkru sinni fyrr. Það er staðreynd að sífellt verður erfiðara að fóta sig í íslensku samfélagi nema með þekkingu á ensku, skrifaðri eða talaðri. Enskan er oftar en ekki fyrsta samskiptamál innflytjenda og/erlendra starfsmanna á vinnumarkaði. Enskan er það tungumál sem Íslendingar nota mest í samskiptum við innflytjendur. Hvað verður um okkar „ástkæra ylhýra“ ef heldur fram sem horfir? Fátt vekur upp álíka tilfinningahita meðal landsmanna og umræðan um íslenskt mál. Leitað verður svara við þessum áleitnu spurningum.

Að vera Íslendingur – þjóðarímynd, sjálfsímynd – hvað þýðir það?

Menningin er máttugt, dulið og oft ómeðvitað afl sem ákvarðar hegðun einstaklinga og hópa, skynjanir, skilning og gildi. Hvaða gerir Íslendinga að Íslendingum? Er hætta á að þeir glati sérkennum sínum í sífellt áleitnari áhrifum annara menninga? Fjallað verður um vægi menningarinnar, þessa kvika, síbreytilega og dularfulla afls á nýstárlegan og gagnrýninn hátt.

Er glansmyndin hrunin? Ímynd og orðspor Íslands – ein saga eða margar sögur?

Hverjar eru hugmyndir Íslendinga um sjálfa sig á 21. öldinni frá „sakleysi“ að innflytjendastraumi, Hruni, kynjajafnréttisparadís, Panamaskjölum og milljónum túrista! Hverjar eru hugmyndir annara um Ísland og Íslendinga, skipta þær máli fyrir þjóðarímyndina? Skiptir máli að orðspor ríkja/landa raskist? Í erindinu verður leitað svara við þessum áleitnu spurningum.

Nafngiftir – nafnalög – Sumum leyft það sem öðrum er bannað

Hví er ég Arnibjarnarson en hvorki Kúld né Schiöth? Afhverju mega sumir bera ættarnöfn en aðrir alls ekki? Afhverju má fólk af erlendum uppruna aðeins bera ættarnöfn í tvær kynslóðir og svo er það bannað? Er hættulegra að heita Elisabeth en Elísabet, Kevin en Baldvin? Er réttlætanlegt að hafa lög um sérstök kvenna- og karlanöfn á tímum uppstokkunar og fjölgunar á kynjum? Í erindinu er mannanafnalöggjöfin sett í hugmyndafræðilegt og sögulegt samhengi, og spurningum velt upp um tilverurétt laganna á tímum ört vaxandi vitundar um félagslegt og lagalegt jafnræði allra borgara samfélagsins.

Almenn atriði

Mirra leggur áherslu á að hægt er að skraddarasníða styttri og lengri námskeið að þörfum viðskiptavina. Fræðslan fer fram á þeim tíma sem hentar best viðskiptavininum, hvort heldur á hefðbundnum vinnutíma frá 9-17 eða utan hans. Námskeiðin eru mislöng. Styttri námskeið eru frá 1×2 klst að 2×3 klst með hléum á milli. Stærri og lengri námskeið og vinnustofur eru útfærðar í samvinnu við viðskiptavini.

Kennslan byggist á framsögn kennara og lifandi samræðum milli kennara og þátttakenda. Þátttakendur taka þátt í stuttum verkefnum, bæði hóp- og einstaklingsverkefnum, sem þeir leysa á staðnum.

Fyrirlestrar eru að jafnaði 35-40 mínútur auk fyrirspurna úr sal, samtals ein klukkustund.

Verð námskeiða fer lækkandi eftir því sem fleiri eru keypt. Staðfestingargjald er greitt þegar pantað er – það endurgreiðist ekki. Afpantanir skulu tilkynnast með 10 daga fyrirvara. Sé námskeið afpantað með 5-9 daga fyrirvara greiðist hálft námskeiðsgjald, sé tími skemmri er greitt fullt gjald. Námskeið og vinnustofur miðast við 22 manna hópa að hámarki. Ekkert hámark er á fjölda þátttakenda á fyrirlestra.