Mirra vekur athygli á afar áhugaverðu málþingi, sem stéttarfélagið Efling, Starfsgreinasambandið (SGS) og Alþýðusamband Íslands (ASÍ) efna til og fjallar um stöðu erlends verkafólks á Íslandi. Málþingið er haldi  dagana 23.-26. febrúar.
Boðið verður upp á áhugaverða dagskrá í formi fyrirlestra og umræðna.

Um fjóra viðburði er að ræða sem verður streymt á miðlum samtakanna. Viðburðirnir verða textatúlkaðir á íslensku og ensku og fara fram .kl. 15:00–16:00 alla dagana og má nálgast hvern og einn fyrir neðan sama dag eftir að þeir eru sendir út.

Dagskráin hefst þriðjudaginn 23. febrúar þar sem fjallað verður um
Veruleika erlends fólks á Íslandi. Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu – rannsóknarstofu ASÍ –  kynnir helstu niðurstöður nýrrar könnunar varðandi veruleika erlends starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði. Í pallborði eru Anna Wojtynska, nýdoktor í mannfræði við HÍ og Hallfríður Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Mirru. Drífa Snædal, forseti ASÍ, stýrir umræðum.

Fylgjast með viðburði 

Harkvinna og varnarleysi á íslenskum vinnumarkaði er  yfirskrift dagskrárinnar miðvikudaginn 24. Febrúar.  Þar mun Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, stýra umræðum um aðstæður pólsks verkafólks á Íslandi. Í pallborði eru Adda Guðrún Gylfadóttir, félagsfræðingur, HÍ, Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar og Piotr Roicki, fyrrverandi hótelstarfsmaður og félagi í Eflingu.

Hér má nálgast umræðurnar

Bjargvættir í íslenskri ferðaþjónustu er yfirskrift umræðunnar fimmtudaginn 25. Febrúar.  Þar leiðir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, dagskrána um framlag erlends verkafólks til íslenskrar ferðaþjónustu. Magnfríður Júlíusdóttir, lektor í mannvistarlandfræði við HÍ flytur erindið: „Það á ekki að líta á starfsfólk í ferðaþjónustu sem einnota dót.” Arndís Ósk Magnúsdóttir, hjá Rannsóknarsetri Háskólans á Höfn talar um  „Upplifun erlends verkafólks í ferðaþjónustu í Covid“  og Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis og formaður starfshóps ASÍ um uppbyggingu ferðaþjónustunnar, flytur erindið sem heitir: Notum tækifærið, byggjum upp fyrirmyndar ferðaþjónustu.

Hér má nálgast umfjöllunina um ferðaþjónustuna.

Vinnumansal – íslenskur veruleiki  er til umfjöllunar föstudaginn 26. febrúar kl., og er jafnframt síðast erindið á málþinginu.  Ragna Björg Guðbrandsdóttir, teymisstjóri framkvæmdateymis um mansal í Bjarkarhlíð, Logan Smith Sigurðsson, fórnarlamb mansals og formaður Stop the Traffik Iceland og  Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands og fulltrúi í framkvæmdateymi um mansal í Bjarkarhlíð sitja í pallborði.

Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, stýrir umræðum.

Hér má nálgast umræðurnar.