Innflytjendur aldrei fleiri og fjölgar enn

Innflytjendur aldrei fleiri og fjölgar enn

Hagstofa Íslands birti í dag, 2.desember 2019, tölur um skráða innflytjendur búsetta á Íslandi þann 1.janúar s.l. Þar kemur fram að fyrsta kynslóð innflytjenda telur ríflega fimmtíu þúsund og önnur kynslóð innflytjenda rúmlega fimm þúsund, samanlagt 55.535 manns, sem nemur 15,6% af heildarmannfjölda um síðustu áramót. Líkt og fyrr eru Pólverjar fjölmennasti innflytjendahópurinn, tæplega tuttugu þúsund manns eða 38% af öllum innflytjendum. Búsetudreifing innflytjenda er alveg á pari við aðra landsmenn en hlutfallslega jafnmargir meðal þeirra búa á  höfuðborgarsvæðinu og innfæddir Íslendingar eða tæplega 64%.  Sá landshluti sem sker sig úr á landsvísu hvað varðar fjölda eru Suðurnes en þar þar eru fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda um 27% allra íbúa og mælist hvergi hærri. Innflytjendum hefur fjölgað þar afar hratt undanfarin ár, ekki síst í tengslum við fjölgun ferðamanna og efnahagsuppgang henni tengdri.  Ljóst er að íslenskt samfélag verður sífellt fjölbreytilegra og einsleitnin tilheyrir liðinni tíð.

Hagstofan skilgreinir innflytjanda af fyrstu kynslóð þann sem fæddur er erlendis og á báða foreldra af erlendum uppruna. Börn þeirra, sem fædd eru á Íslandi teljast til annarar kynslóðar. Auk innflytjenda skilgreinir Hagstofan “fólk af erlendum uppruna” þá einstaklinga, sem eiga annað foreldri sem upprunið er annarsstaðar en á Íslandi. Sá hópur er um 7% heildarfjölda landsmanna að frádregnum innflytendum eða samanlagt tuttugu og eitt þúsund. Hér má nálgast frétt Hagstofu Íslands.

Þess má að lokum geta að samkvæmt ársfjórðungstölum Hagstofunnar fjölgaði aðfluttum erlendum ríkisborgurum umfram brottflutta á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2019 um rúmlega fjögur þúsund. Sá fjöldi er ekki inn í fyrrgreindum tölum að ofan. Ef fram heldur sem horfir verða innflytjendur, bæði fyrsta og önnur kynslóð, tæplega sextíu þúsund um næstu áramót.

 

Jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði – ný rannsókn Réttar lögmannsstofu

Jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði – ný rannsókn Réttar lögmannsstofu

Rannsóknarskýrslan Jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði sem unnin var af lögmönnum Réttar lögmannsstofu leit dagsins ljós á dögunum.  Hér er á ferðinni ákaflega merkileg rannsókn, sem lýtur  að greiningu og mati á möguleikum langskólagenginna innflytjenda á atvinnumöguleikum hjá því opinbera með sérstakri vísan til núverandi jafnréttisumhverfis, bæði hvað varðar lög og stefnumál.

Í útdrætti skýrslunnar segir að helstu niðurstöður séu þær „að margskonar hindranir standi í vegi menntaðra innflytjenda að vinnu hjá hinu opinbera. Þar á meðal er ófullnægjandi íslenskukunnátta, sem vegur þungt, en samt sem áður má rekja margar hindranir til óhagstæðra laga og stefnu stjórnvalda, sem og framkvæmdar.

Niðurstöður sýna jafnframt að í stefnu íslenska ríkisins um aðlögun innflytjenda að atvinnumarkaði, sé litið á aðlögunina sem velferðarmál fremur en jafnréttismál. Þetta er ólíkt nálgun sumra Norðurlandanna, sem hafa komið ýmsum aðgerðum í framkvæmd í samræmi við mismununar- og jafnréttislöggjöf, með það að markmiði að tryggja jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði.

Í skýrslunni eru ýmsar tillögur gerðar sem miða að því að bæta úr þessum annmörkum og hvetur til betri stefnumótunar til þess að þekking og hæfni innflytjenda nýtist betur. Meðal tillagna eru einföldun matsferlis á erlendri menntun og tímabundnar jákvæðar aðgerðir sem miða að samþættingu á vinnumarkaði fyrir innflytjendur almennt sem og konur af erlendum uppruna. Meðal þessara aðgerða gætu verið starfsnám, námskeið í stjórnsýslurétti og framkvæmd, brúarnámskeið sem miða að því að fá menntun og reynslu metna, sérsniðin íslenskunámskeið o.s.frv.“

Rannsóknin var unnin af tveimur lögmönnum Réttar, Claudia A. Wilson og Auði T. Aðalsteindóttur.  Mirra fagnar þessari merku rannsókn og hvetur áhugasama til að kynna sér skýrsluna sem má nálgast hér.

English: This report on the equality of immigrants in the Icelandic labour market includes an executive summary, and two chapters (conclusions and recommendations) in English.

Mirra fær styrk til rannsóknar á innflytjendakonum í láglaunastörfum

Mirra fær styrk til rannsóknar á innflytjendakonum í láglaunastörfum

Það var mikið gleðiefni fyrir Mirru að taka á móti veglegum styrk úr Jafnréttissjóði Íslands þann 19. júní s.l. Styrkurinn er veittur til rannsóknar, sem ber yfirskriftina: Kjör, lífskilyrði og staða innflytjendakvenna í láglaunastörfum á almennum og opinberum markaði. Að mati fagráðs, „fellur umsóknin vel að starfssviði sjóðsins, lýsing á markmiðum og þekkingu skýr. Nýnæmi verkefnis er mikið og felst í að beina sjónum að kjörum, lífsskilyrðum, stöðu og möguleikum innflytjendakvenna í samanburði við íslenskar konur sem starfa hlið við hlið.“  Dr. Hallfríður Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri Mirru og Harpa Njáls félagsfræðingur og sérfræðingur í lífskjörum fátækra kvenna munu vinna rannsóknina. Áætlað er að rannsókn hefjist snemma á haustdögum.
Hagvöxturinn óhugsandi án innflytjenda

Hagvöxturinn óhugsandi án innflytjenda

Vöxturinn í ferðaþjónustunni hefði aldrei orðið að veruleika nema með vinnuframlagi innflytjenda, er meðal þess, sem kom fram í kynninu Hallfríðar Þórarinsdóttur, á rannsókninni Innflytjendur í ferðaþjónustu – drifkraftur vaxtar og hagsældar, sem fram fór í Þjóðminjasafni þann 11. apríl. s.l. af tilefni útkomu samnefndrar rannsóknarskýrslu.  Höfundur greindi þar frá efnistökum rannsóknar og helstu niðurstöðum.  Útgangspunktur rannsóknar var að kanna hvort og þá hvernig etnísk lagskipting (heimamenn/aðfluttir) á vinnumarkaði birtist innan ferðaþjónustunnar. Til að svara þeirri spurningu var hlutdeild innflytjenda í þremur undirgreinum ferðaþjónustunnar: hótelum, bílaleigum og rútufyrirtækjum, kortlögð. Rannsóknin leiddi í ljós ótvíræða etníska lagskiptingu, sem og kyn- og aldursskiptingu en þó mismikla innan þessara undirgreina. Rannsóknin leiddi ennfremur í ljós skort á heildarstefnu bæði í stærstu atvinnugrein landsmanna: ferðaþjónustunni og líka hvað viðkemur innflytjendum, sem í báðum tilvikum kemur ekki síst niður á innflytjendum. Rannsóknin, sem er um eitt hundrað síður að stærð, gefur glögga sýn á þann samhliða vöxt sem verið hefur í fjölgun innflytjenda og erlendra ferðamanna til landsins og vekur upp áleitnar spurningar um margskonar nýjar samfélagslegar áskoranir, sem óhjákvæmilega fylgja þessum miklu breytingum á íslenskum vinnumarkaði og samfélagi.

Í tilefni kynningarinnar, var rætt við höfund í fjölmiðlum m.a í sjónvarpsfréttum á RÚV og í Samfélaginu á Rás1, ásamt umfjöllun á mbl.is.

Hægt er að panta skýrsluna á: mirra@mirra.is

Innflytjendur í ferðaþjónustu – drifkraftur vaxtar og hagsældar

Innflytjendur í ferðaþjónustu – drifkraftur vaxtar og hagsældar

Í tilefni af útkomu rannsóknarskýrslunnar Innflytjendur í ferðaþjónstu – drifkraftur vaxtar og hagsældar, umbreytingar á íslenskum vinnumarkaði, boðar Mirra, til hádegisfundar í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins þann 11. apríl n.k. kl. 12- 13:16. Þar mun dr. Hallfríður Þórarinsdóttir kynna helstu niðurstöður samnefndrar rannsóknar sinnar.

Í rannsókninni var rýnt í hlutdeild innflytjenda í stærstu atvinnugrein landsins: ferðaþjónustunni þar sem starfsfólk á hótelum, rútufyrirtækjum/ferðaskrifstofum og bílaleigum var skoðað sérstaklega. Greint verður frá margbreytilegri samsetningu hópanna, sem til rannsóknar voru og þær niðurstöður skoðaðar í ljósi kenninga um etnískt lagskiptann vinnumarkað. Rannsóknarniðurstöður eru lýsandi dæmi um þær grundvallarbreytingar sem eru að verða á íslenskum vinnumarkaði með hraðvaxandi fjölgun innflytjenda. Breytingunum fylgja fjölmargar áskoranir –  fyrir yfirvöld, aðila vinnumarkaðarins, ferðaþjónustuna og samfélagið í heild. Rannsóknin varpar ljósi á þessar áskoranir og vekur upp gagnrýnar spurningar þar að lútandi.

Dagskrá:

12:00 – 12:05 – Tatjana Latinovic, formaður Innflytjendaráðs ávarpar gesti.

12:05 – 12:45 – dr. Hallfríður Þórarinsdóttir kynnir helstu niðurstöður rannsóknar.

12:45 – 13:15 – Umræður og fyrirspurnir úr sal.

Kynningin fer fram í Þjóðminjasafni, fimmtudaginn 11. apríl kl. 12-13:15

Kynningin er öllum opin.