Vilja skapa fullt jafnrétti á vinnustað óháð uppruna – Mirra í samstarf með Samkaupum

Vilja skapa fullt jafnrétti á vinnustað óháð uppruna – Mirra í samstarf með Samkaupum

Samkaup vilja auka umræðu um málefni innflytjenda en fyrirtækið vill skapa starfsfólki sínu fullt jafnrétti óháð uppruna. Til þess að það sé mögulegt þarf að gera breytingar á skipulagi og menningu innan fyrirtækisins og fræða starfsfólk.

Það er ánægjulegt að segja frá því að Samkaup hafa í þeim tilgangi skrifað undir samstarfssamning við Mirru um margvíslega fræðslu til að lágmarka hættu á fordómum á vinnustaðnum, mæta þörfum starfsfólks af erlendum uppruna og tryggja að þau hafi full tækifæri til að þróast innan fyrirtækisins.

Undirskriftin fór fram í nýju Nettó búðinni í Mosfellsbæ 3. september.

Ætla alla leið í jafnrétti

Samstarf Mirru og Samkaupa er hluti af átakinu „Jafnrétti fyrir alla – Samkaup alla leið“ sem fer af stað í haust. Átakið felur í sér bætta ferla, fræðslufyrirlestra fyrir starfsfólk í verslunum Samkaupa um allt land, rafræna fræðslu og vinnufundi með stjórnendum. Sérstök áhersla verður lögð á að stjórnendur sýni gott fordæmi fyrir starfsfólk sitt og taki málefni jafnréttis til gagngerrar skoðunar með starfsmannahópnum á hverjum stað.

Nánar um Samkaup

Samkaup reka yfir 60 verslanir víðsvegar um landið undir vörumerkjunum Nettó, Krambúðin, Kjörbúðin, Iceland og Samkaup Strax. Mikil fjölbreytni einkennir starfsmannahópinn hjá Samkaupum en alls starfa 1.500 manns hjá fyrirtækinu í fullu starfi eða hlutastarfi.

 

Mannamunur á íslenskum vinnumarkaði

Mannamunur á íslenskum vinnumarkaði

Mirra vekur athygli á afar áhugaverðu málþingi, sem stéttarfélagið Efling, Starfsgreinasambandið (SGS) og Alþýðusamband Íslands (ASÍ) efna til og fjallar um stöðu erlends verkafólks á Íslandi. Málþingið er haldi  dagana 23.-26. febrúar.
Boðið verður upp á áhugaverða dagskrá í formi fyrirlestra og umræðna.

Um fjóra viðburði er að ræða sem verður streymt á miðlum samtakanna. Viðburðirnir verða textatúlkaðir á íslensku og ensku og fara fram .kl. 15:00–16:00 alla dagana og má nálgast hvern og einn fyrir neðan sama dag eftir að þeir eru sendir út.

Dagskráin hefst þriðjudaginn 23. febrúar þar sem fjallað verður um
Veruleika erlends fólks á Íslandi. Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu – rannsóknarstofu ASÍ –  kynnir helstu niðurstöður nýrrar könnunar varðandi veruleika erlends starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði. Í pallborði eru Anna Wojtynska, nýdoktor í mannfræði við HÍ og Hallfríður Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Mirru. Drífa Snædal, forseti ASÍ, stýrir umræðum.

Fylgjast með viðburði 

Harkvinna og varnarleysi á íslenskum vinnumarkaði er  yfirskrift dagskrárinnar miðvikudaginn 24. Febrúar.  Þar mun Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, stýra umræðum um aðstæður pólsks verkafólks á Íslandi. Í pallborði eru Adda Guðrún Gylfadóttir, félagsfræðingur, HÍ, Agnieszka Ewa Ziólkowska, varaformaður Eflingar og Piotr Roicki, fyrrverandi hótelstarfsmaður og félagi í Eflingu.

Hér má nálgast umræðurnar

Bjargvættir í íslenskri ferðaþjónustu er yfirskrift umræðunnar fimmtudaginn 25. Febrúar.  Þar leiðir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, dagskrána um framlag erlends verkafólks til íslenskrar ferðaþjónustu. Magnfríður Júlíusdóttir, lektor í mannvistarlandfræði við HÍ flytur erindið: „Það á ekki að líta á starfsfólk í ferðaþjónustu sem einnota dót.” Arndís Ósk Magnúsdóttir, hjá Rannsóknarsetri Háskólans á Höfn talar um  „Upplifun erlends verkafólks í ferðaþjónustu í Covid“  og Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis og formaður starfshóps ASÍ um uppbyggingu ferðaþjónustunnar, flytur erindið sem heitir: Notum tækifærið, byggjum upp fyrirmyndar ferðaþjónustu.

Hér má nálgast umfjöllunina um ferðaþjónustuna.

Vinnumansal – íslenskur veruleiki  er til umfjöllunar föstudaginn 26. febrúar kl., og er jafnframt síðast erindið á málþinginu.  Ragna Björg Guðbrandsdóttir, teymisstjóri framkvæmdateymis um mansal í Bjarkarhlíð, Logan Smith Sigurðsson, fórnarlamb mansals og formaður Stop the Traffik Iceland og  Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands og fulltrúi í framkvæmdateymi um mansal í Bjarkarhlíð sitja í pallborði.

Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, stýrir umræðum.

Hér má nálgast umræðurnar.

 

 

 

Ráðgjafarstofa innflytjenda opnar

Ráðgjafarstofa innflytjenda opnar

Þann 10. febrúar opnaði Ásmundur E. Daðason Félagsmálaráðherra, Ráðgjafarstofu innflytjendamála.

Í frétt Stjórnarráðsins kemur fram að ráðgjafarstofan hafi það að „markmiði að tryggja betri og markvissari ráðgjöf til innflytjenda og býður upp á aðgengilega ráðgjöf, leiðbeiningar og upplýsingar fyrir innflytjendur um nauðsynlega þjónustu, réttindi þeirra og skyldur.“ Ennfremur er stofunni ætlað að vera samstarfsvettvangur milli stofnana ríkis, sveitarfélaga og hagsmunaaðila svo sem stéttafélaga og félagasamtaka. Ráðgjafarstofan vinnur í nánu samstarfi við Fjölmenningarsetur, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Umboðsmann skuldara, Reykjavíkurborg og Vinnumálastofnun.

Hugmyndina að ráðgjafarstofunni átti Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri Grænna, sem var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um málið sem var samþykkt í júní 2019.

Á Ráðgjafarstofunni starfa fimm starfsmenn sem hafa fjölbreytan bakgrunn og munu geta veitt ráðgjöf á sjö tungumálum en auk þess mun einstaklingum bjóðast ráðgjöf í gegnum túlkaþjónustu á öðrum tungumálum. Opnuð hefur verið vefsíða, newiniceland.is, þar sem einstaklingar geta bæði sent inn erindi, panta viðtal eða spjalla við ráðgjafanna. Forstöðumaður er Joanna Marcinkowska.

Ráðgjafarstofan er hugsuð sem reynsluverkefni til níu mánaða og að sex mánuðum liðnum verður verkefnið metið með tilliti til framtíðarfyrirkomulags. Hér má nálgast vef Ráðgjafstofunnar.

Á meðfylgjandi mynd má sjá frá vinstri: Kolbein Óttarsson Proppé, Joanna Marcinkowska og Ásmund E. Daðason.