Er það meiningin að útiloka innflytjendur, eða hvað?

Er það meiningin að útiloka innflytjendur, eða hvað?

Það er merkilegt hversu margir Íslendingar virðast frekar tala ensku við innflytjendur er íslensku. Hvers vegna skyldi þetta vera? Er það leti, skortur á umburðalyndi gagnvart íslensku með hreim, eða hreinlega meðvituð útilokun? Er enskan brú eða hindrun í samskiptum milli heimamanna og aðfluttra? Er okkur heimamönnum alvara með því að opna innflytjendum möguleika á að komast inn í samfélagið og verða eins virkir þáttakendur og mögulegt er eða lítum við fyrst og fremst á þá sem “vinnuafl”? Í þessum pistli veltir framkvæmdastjóri Mirru þessu fyrir sér og spyr áleitinna spurninga. 

Hér er líka fróðlegt viðtal  um sama efni við Jimmy Andreas Moreno, Kólumbískan flóttamann um reynslu hans af því að læra og tala íslensku. Viðtalið er nokkurra ára gamalt en erindið er jafnbrýnt nú og þá. 

70 þúsund innflytjendur á Íslandi – nauðsyn á vitundarvakningu og menningarfærni meðal heimamanna

70 þúsund innflytjendur á Íslandi – nauðsyn á vitundarvakningu og menningarfærni meðal heimamanna

Blaðakona frá Mannlífi hafði samband við Mirru og vildi fá viðtal við framkvæmdastjórann Hallfríði Þórarinsdóttur, forvitnast um bakgrunn hennar,  skyggnast inn í starf Mirru um innflytjendalandið Ísland og heyra hvaða áskoranir fylgdu breyttu samfélagi. Fyrirspurnin fékk góðar undirtektir og þær hittust á kaffihúsi og ræddu málin.

Þar kom fram að auk rannsókna, vinni Mirra „að fræðslu í formi fyrirlestra og námskeiða um innflytjendalandið Ísland, margmenningu og þjálfun í s.k. menningarfærni. Vitundarvakning um mikilvægi þess að margbreytileikinn fái notið sín, verður sífellt háværari. Það er ekki nóg að segjast vera jafnréttissinnaður heldur verður það að sjást í verki. Jafnrétti einskorðast ekki við kynjajafnrétti það er miklu víðtækara. Það þarf að taka tillit til menningarlegs uppruna, aldurs og fleiri þátta“. Hér má lesa viðtalið.

Vilja skapa fullt jafnrétti á vinnustað óháð uppruna – Mirra í samstarf með Samkaupum

Vilja skapa fullt jafnrétti á vinnustað óháð uppruna – Mirra í samstarf með Samkaupum

Samkaup vilja auka umræðu um málefni innflytjenda en fyrirtækið vill skapa starfsfólki sínu fullt jafnrétti óháð uppruna. Til þess að það sé mögulegt þarf að gera breytingar á skipulagi og menningu innan fyrirtækisins og fræða starfsfólk.

Það er ánægjulegt að segja frá því að Samkaup hafa í þeim tilgangi skrifað undir samstarfssamning við Mirru um margvíslega fræðslu til að lágmarka hættu á fordómum á vinnustaðnum, mæta þörfum starfsfólks af erlendum uppruna og tryggja að þau hafi full tækifæri til að þróast innan fyrirtækisins.

Undirskriftin fór fram í nýju Nettó búðinni í Mosfellsbæ 3. september.

Ætla alla leið í jafnrétti

Samstarf Mirru og Samkaupa er hluti af átakinu „Jafnrétti fyrir alla – Samkaup alla leið“ sem fer af stað í haust. Átakið felur í sér bætta ferla, fræðslufyrirlestra fyrir starfsfólk í verslunum Samkaupa um allt land, rafræna fræðslu og vinnufundi með stjórnendum. Sérstök áhersla verður lögð á að stjórnendur sýni gott fordæmi fyrir starfsfólk sitt og taki málefni jafnréttis til gagngerrar skoðunar með starfsmannahópnum á hverjum stað.

Nánar um Samkaup

Samkaup reka yfir 60 verslanir víðsvegar um landið undir vörumerkjunum Nettó, Krambúðin, Kjörbúðin, Iceland og Samkaup Strax. Mikil fjölbreytni einkennir starfsmannahópinn hjá Samkaupum en alls starfa 1.500 manns hjá fyrirtækinu í fullu starfi eða hlutastarfi.