Fyrir skemmstu voru birtar niðurstöður MIPEX, sem stendur fyrir Migrant Integration Policy Index, sem þýða mætti sem Vísitala opinberrar stefnu um samþættingu inn/flytjenda).
Í ljós kom að Svíþjóð er enn í efsta sæti, en af Norðurlöndunum hækkaði Ísland MIPEX vísitalan mest, eða um sjö stig úr 49 í 56 milli áranna 2014 og 2019, á kvarðanum 100. Svíþjóð fékk 86 stig, lækkaði um eitt á tímabilinu. Fjallað var um MIPEX niðurstöðurnar í frétt í Nordic Labour Journal (21.01. 2021) og sérstaklega um stöðu Norðurlandanna. Ísland var í næst neðsta sæti, Danmörk í því neðsta. Frekari upplýsingar um hvernig Norðurlöndin raðast í MIPEX má nálgast hér.
Að baki MIPEX standa 52 ríki víðsvegar í heiminum og vísitalan mælir átta mismunandi þætti í hverju landi með tilliti til aðgengis innflytjenda. Þættirnir eru: Hreyfanleiki á vinnumarkaði – Fjölskyldusameining – Menntun – Heilsa – Pólitísk þátttaka- Langtíma búseta – Aðgengi að ríkisfangi móttökulands – Aðgerðir gegn mismunun.
Í fyrrgreindri frétt Nordic Labour Journal er greint frá því að MIPEX vísitalan sé oft notuð til að bera saman hversu víðtæk samþættingarstefna hvers lands er. Það segir hins vegar ekkert um hversu árangursrík stefnan er. Land sem eingöngu hleypir inn mjög hæfu starfsfólki getur til dæmis mælst með betri árangur en land sem tekur á móti fjölda lágmenntaðra flóttamanna.
Vegna þess hversu fáir innflytjendur bjuggu lengst af í landinu hafði Ísland ekki sett neina löggjöf til að vernda innflytjendur gegn mismunun. Innflytjendur höfðu heldur ekki umboð til að leita til ef þeim fannst mismunað. Fyrir vikið hafði Ísland verstu aðlögunarstefnuna á Norðurlöndum árið 2014 samkvæmt MIPEX.
„Áður var aðkoma Íslands að samþættingu flokkuð af MIPEX sem„ innflytjendamál án samþættingar“vegna þess að innflytjendum til Íslands var neitað um svo mörg grunnréttindi til þátttöku sem jafningja í íslensku samfélagi. Nú njóta innflytjendur góðs af „heildstæðri nálgun“ varðandi samþættingu, með öruggari grunnréttindum og stuðningi við jöfn tækifæri. Það má líta á þessa breytingu sem mikla viðurkenningu á Íslandi sem innflytjendaríki, svipað og öll önnur vestur-evrópsk lönd. “
Sumar mikilvægustu aðgerðirnar sem MIPEX nefnir eru meðal annars löggjöf til að vernda bæði Íslendinga og innflytjendur gegn mismunun á grundvelli kynþáttar, þjóðernis eða trúarbragða. Í þessu tilviki munar mestu um Lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna nr. 85, sem samþykkt voru 25. júní 2018 sem og Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2020 sem samþykkt voru sama dag.
Ennfremur skiptir hér máli að starfssemi Jafnréttisstofu var víkkuð út með lögum nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála, sem samþykkt voru 29. desember s.l., og sem ná til jafnréttis innflytjenda. Í sem stystu máli benda niðurstöður MIPEX til batnandi stöðu innflytjenda gagnvart íslenskum lögum og það er vissulega fagnaðarefni.