Rannsóknarskýrslan Jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði sem unnin var af lögmönnum Réttar lögmannsstofu leit dagsins ljós á dögunum. Hér er á ferðinni ákaflega merkileg rannsókn, sem lýtur að greiningu og mati á möguleikum langskólagenginna innflytjenda á atvinnumöguleikum hjá því opinbera með sérstakri vísan til núverandi jafnréttisumhverfis, bæði hvað varðar lög og stefnumál.
Í útdrætti skýrslunnar segir að helstu niðurstöður séu þær „að margskonar hindranir standi í vegi menntaðra innflytjenda að vinnu hjá hinu opinbera. Þar á meðal er ófullnægjandi íslenskukunnátta, sem vegur þungt, en samt sem áður má rekja margar hindranir til óhagstæðra laga og stefnu stjórnvalda, sem og framkvæmdar.
Niðurstöður sýna jafnframt að í stefnu íslenska ríkisins um aðlögun innflytjenda að atvinnumarkaði, sé litið á aðlögunina sem velferðarmál fremur en jafnréttismál. Þetta er ólíkt nálgun sumra Norðurlandanna, sem hafa komið ýmsum aðgerðum í framkvæmd í samræmi við mismununar- og jafnréttislöggjöf, með það að markmiði að tryggja jafnrétti innflytjenda á atvinnumarkaði.
Í skýrslunni eru ýmsar tillögur gerðar sem miða að því að bæta úr þessum annmörkum og hvetur til betri stefnumótunar til þess að þekking og hæfni innflytjenda nýtist betur. Meðal tillagna eru einföldun matsferlis á erlendri menntun og tímabundnar jákvæðar aðgerðir sem miða að samþættingu á vinnumarkaði fyrir innflytjendur almennt sem og konur af erlendum uppruna. Meðal þessara aðgerða gætu verið starfsnám, námskeið í stjórnsýslurétti og framkvæmd, brúarnámskeið sem miða að því að fá menntun og reynslu metna, sérsniðin íslenskunámskeið o.s.frv.“
Rannsóknin var unnin af tveimur lögmönnum Réttar, Claudia A. Wilson og Auði T. Aðalsteindóttur. Mirra fagnar þessari merku rannsókn og hvetur áhugasama til að kynna sér skýrsluna sem má nálgast hér.
English: This report on the equality of immigrants in the Icelandic labour market includes an executive summary, and two chapters (conclusions and recommendations) in English.