Hagstofa Íslands birti í dag, 2.desember 2019, tölur um skráða innflytjendur búsetta á Íslandi þann 1.janúar s.l. Þar kemur fram að fyrsta kynslóð innflytjenda telur ríflega fimmtíu þúsund og önnur kynslóð innflytjenda rúmlega fimm þúsund, samanlagt 55.535 manns, sem nemur 15,6% af heildarmannfjölda um síðustu áramót. Líkt og fyrr eru Pólverjar fjölmennasti innflytjendahópurinn, tæplega tuttugu þúsund manns eða 38% af öllum innflytjendum. Búsetudreifing innflytjenda er alveg á pari við aðra landsmenn en hlutfallslega jafnmargir meðal þeirra búa á  höfuðborgarsvæðinu og innfæddir Íslendingar eða tæplega 64%.  Sá landshluti sem sker sig úr á landsvísu hvað varðar fjölda eru Suðurnes en þar þar eru fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda um 27% allra íbúa og mælist hvergi hærri. Innflytjendum hefur fjölgað þar afar hratt undanfarin ár, ekki síst í tengslum við fjölgun ferðamanna og efnahagsuppgang henni tengdri.  Ljóst er að íslenskt samfélag verður sífellt fjölbreytilegra og einsleitnin tilheyrir liðinni tíð.

Hagstofan skilgreinir innflytjanda af fyrstu kynslóð þann sem fæddur er erlendis og á báða foreldra af erlendum uppruna. Börn þeirra, sem fædd eru á Íslandi teljast til annarar kynslóðar. Auk innflytjenda skilgreinir Hagstofan “fólk af erlendum uppruna” þá einstaklinga, sem eiga annað foreldri sem upprunið er annarsstaðar en á Íslandi. Sá hópur er um 7% heildarfjölda landsmanna að frádregnum innflytendum eða samanlagt tuttugu og eitt þúsund. Hér má nálgast frétt Hagstofu Íslands.

Þess má að lokum geta að samkvæmt ársfjórðungstölum Hagstofunnar fjölgaði aðfluttum erlendum ríkisborgurum umfram brottflutta á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2019 um rúmlega fjögur þúsund. Sá fjöldi er ekki inn í fyrrgreindum tölum að ofan. Ef fram heldur sem horfir verða innflytjendur, bæði fyrsta og önnur kynslóð, tæplega sextíu þúsund um næstu áramót.