Vöxturinn í ferðaþjónustunni hefði aldrei orðið að veruleika nema með vinnuframlagi innflytjenda, er meðal þess, sem kom fram í kynninu Hallfríðar Þórarinsdóttur, á rannsókninni Innflytjendur í ferðaþjónustu – drifkraftur vaxtar og hagsældar, sem fram fór í Þjóðminjasafni þann 11. apríl. s.l. af tilefni útkomu samnefndrar rannsóknarskýrslu. Höfundur greindi þar frá efnistökum rannsóknar og helstu niðurstöðum. Útgangspunktur rannsóknar var að kanna hvort og þá hvernig etnísk lagskipting (heimamenn/aðfluttir) á vinnumarkaði birtist innan ferðaþjónustunnar. Til að svara þeirri spurningu var hlutdeild innflytjenda í þremur undirgreinum ferðaþjónustunnar: hótelum, bílaleigum og rútufyrirtækjum, kortlögð. Rannsóknin leiddi í ljós ótvíræða etníska lagskiptingu, sem og kyn- og aldursskiptingu en þó mismikla innan þessara undirgreina. Rannsóknin leiddi ennfremur í ljós skort á heildarstefnu bæði í stærstu atvinnugrein landsmanna: ferðaþjónustunni og líka hvað viðkemur innflytjendum, sem í báðum tilvikum kemur ekki síst niður á innflytjendum. Rannsóknin, sem er um eitt hundrað síður að stærð, gefur glögga sýn á þann samhliða vöxt sem verið hefur í fjölgun innflytjenda og erlendra ferðamanna til landsins og vekur upp áleitnar spurningar um margskonar nýjar samfélagslegar áskoranir, sem óhjákvæmilega fylgja þessum miklu breytingum á íslenskum vinnumarkaði og samfélagi.
Í tilefni kynningarinnar, var rætt við höfund í fjölmiðlum m.a í sjónvarpsfréttum á RÚV og í Samfélaginu á Rás1, ásamt umfjöllun á mbl.is.
Hægt er að panta skýrsluna á: mirra@mirra.is