Fjöldi kvenna af erlendum uppruna fer sífellt vaxandi á Íslandi en raddir þeirra eru þó enn sem komið er fremur hljóðar. Þann 8. mars n.k. á alþjóðleg­um bar­áttu­degi kvenna,  munu nokkrar þessara radda fá að heyrast en það verður á viðburði, sem ber yfirskriftina „Voiceless“ eða „Án raddar“, sem til­einkaður er kon­um af er­lend­um upp­runa, sem bú­sett­ar eru á Íslandi. Það er Ruth Adja­ho Samu­els­son, kona frá Ghana, sem hefur verið búsett á landinu í fjölda ára, sem á veg og vanda að viðburðinum. Ruth vinnur á sjúkrahúsi og hefur verið ötul í starfi Eflingar stéttarfélags og ASÍ og er vel upplýst um réttindi sín og skyldur á vinnumarkaði og í samfélaginu. Margar innflytjendkonur séu það hins vegar ekki, segir Ruth í samtali við Morgunblaðið.

Á málþing­inu verður m.a. rætt um rétt­indi kvenna á Íslandi og hvort kon­ur af er­lend­um upp­runa viti af rétt­ind­um sín­um. Eins hvort þær fái þá aðstoð sem þær eiga rétt á þegar mikl­ar breyt­ing­ar eiga sér stað í lífi þeirra.  Fjallað verður um jafn­rétti í mennta­mál­um og spurt hvort tekið sé til­lit til fólks af ólík­um upp­runa. Eru rétt­indi kvenna af er­lend­um upp­runa á vinnu­markaði þau sömu og inn­fædd­ar kon­ur njóta á Íslandi? Hafa innflytjendakonur upplifað fordóma í sinn garð? Framsöguerindi verða flutt af innflytjendkonum sem og innfæddum konum.

Hér er viðtalið sem Morgunblaðið tók við Ruth Adjaho, og Elisabete Fortes, sem er frá Potúgal en hefur búið á Íslandi í fjölda ára. Elisabete er ein þeirra sem segir frá reynslu sinni á málþinginu.

Myndin að ofan er af Ruth Adjaho Samúelsson t.v. og Elisabete Fortes t.h. Ljósmyndari: mbl.is/Eggert Jóhannesson.