Samkaup vilja auka umræðu um málefni innflytjenda en fyrirtækið vill skapa starfsfólki sínu fullt jafnrétti óháð uppruna. Til þess að það sé mögulegt þarf að gera breytingar á skipulagi og menningu innan fyrirtækisins og fræða starfsfólk.
Það er ánægjulegt að segja frá því að Samkaup hafa í þeim tilgangi skrifað undir samstarfssamning við Mirru um margvíslega fræðslu til að lágmarka hættu á fordómum á vinnustaðnum, mæta þörfum starfsfólks af erlendum uppruna og tryggja að þau hafi full tækifæri til að þróast innan fyrirtækisins.
Undirskriftin fór fram í nýju Nettó búðinni í Mosfellsbæ 3. september.
Ætla alla leið í jafnrétti
Samstarf Mirru og Samkaupa er hluti af átakinu „Jafnrétti fyrir alla – Samkaup alla leið“ sem fer af stað í haust. Átakið felur í sér bætta ferla, fræðslufyrirlestra fyrir starfsfólk í verslunum Samkaupa um allt land, rafræna fræðslu og vinnufundi með stjórnendum. Sérstök áhersla verður lögð á að stjórnendur sýni gott fordæmi fyrir starfsfólk sitt og taki málefni jafnréttis til gagngerrar skoðunar með starfsmannahópnum á hverjum stað.
Nánar um Samkaup
Samkaup reka yfir 60 verslanir víðsvegar um landið undir vörumerkjunum Nettó, Krambúðin, Kjörbúðin, Iceland og Samkaup Strax. Mikil fjölbreytni einkennir starfsmannahópinn hjá Samkaupum en alls starfa 1.500 manns hjá fyrirtækinu í fullu starfi eða hlutastarfi.