Námskeið, vinnustofur og fyrirlestrar

Mirru byggja á áralangri og farsælli reynslu kennara bæði innanlands og utan

 

Áhersla er lögð á gagnvirka kennsluhætti, byggða á framsögn kennara og lifandi samræðum milli hans og þátttakenda. Fræðsla, líkt og rannsóknir og ráðgjöf Mirru er ætíð unnin í samvinnu við viðskiptavini og miðar að því að geta ávarpað sértækar þarfir þeirra, sé þess óskað.

Fyrir stjórnendur

Námskeið /vinnustofur

Fjölþjóðlegur vinnustaður– auðlind eða ok?

Þar sem ólíkir menningarstraumar mætast myndast frjór akur nýrra hugmynda og tækifæra ef rétt er á málum haldið. Fjölþjóðlegum vinnustöðum fylgja engu að síður óteljandi nýjar áskoranir m.a., tungumálaörðugleikar, ólík gildi, skilningur og vinnumenning, misskilningur, fordómar og jafnvel aðskilnaður milli ólíkra hópa eða þjóðerna.

Markmið námskeiðsins er að gefa stjórnendum verkfæri til að takast á við áskoranir, sjá tækifæri fremur en hindranir. Meginverkfærið felst í þjálfun tveggja óaðskiljanlegra þátta. Annars vegar s.k. menningarnæmi (e. cultural sensitivity), sem felur í sér aukinn skilning, virðingu og næmni fyrir mismunandi víddum margbreytileikans. Hins vegar s.k. menningarfærni (e. cultural competence) sem vísar til hegðunar, sem endurspeglar menningarnæmi.

Ávinningur. Aukin menningarnæmni og menningarfærni dýpka skilning og efla styrkinn, sem býr í  fjölþjóðlegum mannauði og stuðlar um leið að góðum samskiptum og  vinnuanda. Þar gegna stjórnendur forystuhlutverki.

Lengd námskeiðs: 1×4 eða 2×3 tímar – sjá nánar undir liðnum Almenn atriði fyrir neðan.

 

Menningarfærni og alþjóðleg samskipti

Sívaxandi alþjóðleg samvinna milli Íslendinga og annara þjóða hvort heldur í alþjóðaviðskiptum eða heima fyrir kallar á nauðsyn menningarfærni (e. cultural competence). Menningin hefur m.a. mótandi áhrif á stjórnunarhætti, fundahöld, viðskiptaumleitanir, vinnulag og samningsgerð. Vandamál  í milli-menningarlegum samskiptum rísa m.a. vegna; samskipta við annað fólk,  mismunandi skilnings á tíma og mismunandi skilnings á umhverfinu. Á maður, svo dæmi sé tekið að vera hlutlaus, tilfinningalega ósnortinn, “svalur” / “cool” í samskiptum við erlenda viðskiptavini eða láta tilfinningar sínar í ljósi því þær eru eðlilegur hluti af viðskiptum? Úr því fæst skorið á námskeiðinu.

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur átti sig á helstu menningarlegu einkennum viðskiptavina sinna, sem hafa áhrif á öll samskipti. Að kunna að lesa í menningu viðskiptavinarins (hafa menningarnæmi) og geta nýtt sér það (búa yfir menningarfærni), auðveldar viðskipti fyrir báða/alla aðila.

Ávinningur þátttakenda felst í meiri hæfni í millimenningarlegum samskiptum sem greiðir götu farsælla viðskipta.

Lengd námskeiðs: 1×4 tímar – sjá nánar undir liðnum Almenn atriði fyrir neðan.

 

Fyrir blandaða hópa

Námskeið /vinnustofur

Inngilding, margbreytileiki, jafnræði 

Að virkja margbreytileikann á vinnustöðum

Íslenskur vinnumarkaður er í alþjóðlegum samanburði vel skipulagður og sveigjanlegur og einkennist m.a. af mikilli atvinnuþátttöku kvenna og innflytjenda. Engu að síður hafa konur, samkynhneigt og kynsegin fólk, útlendingar, fólk af öðrum trúarbrögðum en kristnum, fólk með fatlanir og aðrir sem ekki passað inn í þröngt box meginstraumsflokkunar, lengst af mátt þola jaðarsetningu  á vinnustöðum og vinnumarkaði, sem grundvallast ekki á persónulegri hæfni þeirra og getu heldur hreinlega fordómum.

Margbreytileiki á íslenskum vinnustöðum er ekki nýr en viðurkenning á mikilvægi þess að meta margbreytileika á grundvelli kyns, kynáttunar, uppruna, trúarbragða eða annarra þátta er ný. Því ber að fagna. Sífellt fleiri stjórnendur og almennt starfsfólk áttar sig á því að margbreytileiki mannflórunnar felur í sér tækifæri og áskoranir.

Markmið námskeiðsins er að rýna í hvernig virkja megi margbreytileikann með því að leita í smiðju hugmyndafræðinnar að baki  s.k. DEI nálgunar. (D=Diversity/ margbreytileiki, E=Equity/jafnræði og I=Inclusion/inngilding

Ávinningur felst í aukinni virðingu fyrir margbreytileika, mikilvægi jafnræðis og inngildingar allra á vinnustaðnum. M.ö.o. „win, win“ fyrir alla.

Lengd námskeiðs: 1×4 eða 2×3 tímar – sjá nánar undir liðnum Almenn atriði fyrir neðan.

Fordómar, rasismi, áskoranir og úrlausnir

Fordómar, rasismi og niðurlæging í garð fólks úr annarri menningu en íslenskri og af öðrum litarhætti en hvítum hafa skotið upp kollinum hér og hvar í samfélaginu – í skólum, á vinnustöðum og víðar – og beinast einkum að innflytjendum og  ættleiddum einstaklingum, sem eiga líffræðilegan uppruna sinn í fjarlægum heimshlutum.

Markmið vinnustofunnar er að  rýna í fordóma, rasisma, niðurlægingu, ör-áreiti,  hunsun, jaðarsetningu og útilokun og aðrar áskoranir fjölmenningar. Rætt er hvað stýrir þessum hugmyndum og hegðun og hvers vegna eru þær viðsjárverðar. Ennfremur og ekki síður verður rýnt í ávinninga fjölbreytileikans og hugtökin menningarnæmi, menningarfærni, menningarleg auðmýkt og inngilding, sem hvert um sig felur í sér úrlausnir og færir þátttakendum verkfæri til að tækla fyrrgreind vandamál.

Ávinningur felst í því að gera þátttakendur hæfari til að takast á við menningarlegan margbreytileika með opnu hugarfari og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.

Lengd námskeiðs: 1×4 eða 2×3 tímar – sjá nánar undir liðnum Almenn atriði fyrir neðan.

 

Menningarlegur margbreytileiki á Íslandi – auður og áskoranir

Fjölgun innflytjenda – og erlendra ferðamanna – hefur á stuttum tíma gjörbreytt íslensku samfélagi úr menningarlegri einsleitni yfir í áður óþekkta margsleitni. Margbreytileikinn auðgar og ýtir undir nýjan sköpunarkraft ef rétt er á haldið. Breytingunum fylgja nýjar áskoranir sem mikilvægt er að ávarpa svo hver manneskja fái notið sín óháð uppruna eða hverju því sem gerir hana einstaka.

Markmið.  Rýna í margbreytileikann og átta sig á sérkennum eigin menningar og áhrifum hennar – þ.m.t. sögu, trúarbragða, hagkerfis, félagsgerðar og þjóðmenningar – á sjálfsímyndir, samskipti, tilveru og hugmyndir. Að skilja mikilvægi þess að vera afurð eigin menningar samtímis því að geta umbreytt henni. Að skilja hvað felst í  s.k. ´menningarnæmi´ og ´menningarfærni´ gagnvart fólki úr annarri menningu. Jafnframt verður leitað svara við áleitnum spurningum, sem fylgja margbreytileikanum á Íslandi.

Ávinningur. Aukin færni í að takast á við áskoranir og tækfæri margmenningarinnar. Opnara hugarfar gagnvart samfélagslegum breytingum, sem fylgja margmenningunni, vitund og geta um að geta haft áhrif.

Lengd námskeiðs: 1×3 tímar – sjá nánar undir liðnum Almenn atriði fyrir neðan.

 

Samskipti á vinnustað – betri starfsandi

Vellíðan á vinnustað byggir á góðum starfsanda. Það er hagur allra að kunna að leysa úr ágreiningi og árekstrum, sem upp geta komið. Rýnt verður í og rætt um samskipti og starfsanda á vinnustaði. Áhersla er lögð á ábyrgð hvers einstaklings í mótun og viðhaldi á góðum starfsanda. Þátttakendum kenndar ýmsar aðferðir, sem styrkja þá í tjáningu og auðvelda farsæl samskipti. Valdefling er einn skýrasti ávinningur þessarar vinnustofu.

 

Hvort ég get, ekki málið! – Valdefling, ákveðniþjálfun og öruggari samskipti

Námskeiðið miðar að því að auka sjálftraust einstaklinga gera þá öruggari og ánægðari með sig og kenna aðferðir til að ná þeim markmiðum. Fjallað um tengsl jákvæðrar sjálfsímyndar, góðra samskipta og valdeflingar. Góð samskipti grundvallast á jákvæðri sjálfsímynd og sátt við sjálfan sig.

Fyrir alla

Fyrirlestrar og erindi

 

„Þú mátt vera memm” en ekki þú.   – Hverjir mega vera með og hverjir ekki?

Aðgreining og flokkun á sér djúpar rætur hjá mannkyninu og slíkt þarf ekki alltaf að vera slæmt. En þegar flokkanir í „við“ og „hina“ fela í sér útilokun,  andúð og mismunun í garð annara er málið orðið alvarlegt. Slíkar hugmyndir og hegðun tekur á sig ýmsar myndir m.a., hómófóbíu, rasisma, islamafóbíu og kvenfyrirlitningu ásamt fleiru.  Hvaðan koma þessar hugmyndir, hvað viðheldur þeim og hvernig ríma þær við íslenskan veruleika og kröfuna um jafnrétti allra borgaranna? Í erindinu verður leitað svara og rýnt í áleitnar áskoranir, sem fylgja þessum hugmyndum.

 

Alþjóðlegir fólksflutningar: áfangastaður Ísland

Ísland er nýr áfangastaður á korti alþjóðlegra fólksflutninga. Hvað einkennir innflytjendalandið Ísland, hvernig er það í samanburði við nágrannalöndin? Innflytjendstefna samkvæmt lögum – de jure – og innflytjendastefna í raun – de facto – er munur þar á? Hver er afstaða opinberra yfirvalda er hún próaktíf eða reaktíf? Hvernig gengur sambúð við heimamenn? Hver eru samfélagsleg áhrif innflytjenda?

 

Íslenskan, innflytjendur, enskan og túristarnir

Útbreiðsla ensku sem samskiptamáls á Íslandi hefur aukist jafnt og þétt með fjölgun innflytjenda og erlendra ferðamanna svo mörgum þykir nóg um. Þekking á ensku, talaðri  og/eða skrifaðri er hin ósagða en allt umlykjandi krafa samfélagsins. Enskan er augljóslega brú í samskiptum í ferðaþjónustu en hvort hún er brú eða hindrun í samskiptum við innflytjendur er spurning. Hvað verður um okkar „ástkæra ylhýra“ ef heldur fram sem horfir? Mun „enskan vaða yfir allt“ eins og sumir hafa sagt? Fátt vekur upp álíka tilfinningahita meðal landsmanna og umræðan um íslenskt mál. Í fyrirlestrinum verður svara leitað við þessum og fleiri áleitnum spurningum.

 

Að vera Íslendingur – þjóðarímynd, sjálfsímynd – hvað þýðir það?

Menningin er máttugt, dulið og oft ómeðvitað afl sem ákvarðar hegðun einstaklinga og hópa, skynjanir, skilning og gildi. Hvaða gerir Íslendinga að Íslendingum? Er hætta á að þeir glati sérkennum sínum í sífellt áleitnari áhrifum annara menninga? Fjallað verður um vægi menningarinnar, þessa kvika, síbreytilega og dularfulla afls á nýstárlegan og gagnrýninn hátt.

 

Er glansmyndin hrunin? Ímynd og orðspor Íslands – ein saga eða margar sögur?

Hverjar eru hugmyndir Íslendinga um sjálfa sig á 21. öldinni frá „sakleysi“ að innflytjendastraumi, Hruni, kynjajafnréttisparadís, Panamaskjölum og milljónum túrista! Hverjar eru hugmyndir annara um Ísland og Íslendinga, skipta þær máli fyrir þjóðarímyndina? Skiptir máli að orðspor ríkja/landa raskist? Í erindinu verður leitað svara við þessum áleitnu spurningum.

 

Nafngiftir – nafnalög – Sumum leyft það sem öðrum er bannað

Hví er ég Arnibjarnarson en hvorki Kúld né Schiöth? Afhverju mega sumir bera ættarnöfn en aðrir alls ekki? Afhverju má fólk af erlendum uppruna aðeins bera ættarnöfn í tvær kynslóðir og svo er það bannað? Er hættulegra að heita Elisabeth en Elísabet, Kevin en Baldvin? Er réttlætanlegt að hafa lög um sérstök kvenna- og karlanöfn á tímum uppstokkunar og fjölgunar á kynjum? Í erindinu er mannanafnalöggjöfin sett í hugmyndafræðilegt og sögulegt samhengi, og spurningum velt upp um tilverurétt laganna á tímum ört vaxandi vitundar um félagslegt og lagalegt jafnræði allra borgara samfélagsins.

Almenn atriði

Mirra leggur áherslu á að hægt er að sérsníða námskeið að þörfum viðskiptavina. Fræðslan fer fram á þeim tíma sem hentar best viðskiptavininum, hvort heldur á hefðbundnum vinnutíma frá 9-17 eða utan hans. Námskeiðin eru mislöng. Styttri námskeið eru frá 1×2 klst að 2×3 klst með hléum á milli. Stærri og lengri námskeið og vinnustofur eru útfærðar í samvinnu við viðskiptavini.

Kennslan byggist á framsögn kennara og lifandi samræðum milli kennara og þátttakenda. Þátttakendur taka þátt í stuttum verkefnum, bæði hóp- og einstaklingsverkefnum, sem þeir leysa á staðnum.

Fyrirlestrar eru að jafnaði 35-40 mínútur auk fyrirspurna úr sal, samtals ein klukkustund.

Verð námskeiða fer lækkandi eftir því sem fleiri eru keypt. Staðfestingargjald er greitt þegar pantað er – það endurgreiðist ekki. Afpantanir skulu tilkynnast með 10 daga fyrirvara. Sé námskeið afpantað með 5-9 daga fyrirvara greiðist hálft námskeiðsgjald, sé tími skemmri er greitt fullt gjald. Námskeið og vinnustofur miðast við 22 manna hópa að hámarki. Ekkert hámark er á fjölda þátttakenda á fyrirlestra.