Vöxturinn í íslenskri ferðaþjónustu hefði verið óhugsandi án framlags þeirra þúsunda erlendu starfsmanna, sem komið hafa til landsins til starfa í greininni, er meðal þess sem rannsóknarskýrslan Innflytjendur í ferðaþjónustu – drifkraftur vaxtar og hagsældar, leiðir í ljós. Skýrslan, sem kom út á dögunum er gefin út af Mirru, en þar er rýnt  hina hröðu fjölgun innflytjenda samfara hinum mikla vexti í ferðaþjónustunni. Kynning á rannsókninni fór fram í Þjóðminjasafninu þann 11. apríl s.l. Í kynningunni, sagði Hallfríður Þórarinsdóttir höfundur frá helstu niðurstöðum og efnistökum og greindi frá því að útgangspunktur rannsóknarinnar væri greining á etnískri lagskiptingu á íslenskum vinnumarkaði og hvernig hún birtist í þremur undirgreinum ferðaþjónustunnar; hótelum, bílaleigum og rútufyrirtækjum. Rannsóknin leiddi m.a. í ljós ótvíræða etníska lagskiptingu innan ferðaþjónustunnar en mismikla í þessum undirgreinum. Ennfremur, sýndi rannsóknin  að framlagi þessara starfsmanna og annara, sem hafa gert greininni kleift að vaxa eins hratt og raun ber vitni, hefur lítill gaumur verið gefinn. Einnig kom fram að skortur á heildarstefnu í ferðaþjónustunni, kæmi ekki síst niður á aðflutt starfsfólki sem og skortur á heildstæðri stefnu í málefnum innflytjenda. Hér má lesa frétt sem birtist á mbl.is í tilefni af kynningunni. Ennfremur var rætt stuttlega við höfund skýrslunnar af sama tilefni í fréttum á RÚV, þann 11. apríl, sjá hér. Heyra má lengra viðtal við höfundinn í Samfélaginu á RÚV, sem tekið var þann 10. apríl.

Fyrir þá sem áhuga hafa á að eignast skýrsluna er bent á að hafa samband á: mirra@mirra.is